Beint í efni

Skipulagsskrá fyrir Lyfjafræðisafn

1. grein.

Stofnunin heitir Lyfjafræðisafn

2.grein.

Verksvið safnsins er söfnun og varðveisla lyfja, muna og mannvirkja, er snerta sögu og þróun lyfjafræðinnar. Skal safnið vinna skipulega að skráningu og verndun alls þess, er tengist sögu lyfjafræðinnar.

3. grein.

Aðsetur safnsins skal vera í Reykjavík eða nágrenni. Auk þess geta heyrt undir safnið munir og mannvirki, sem varðveitt eru annars staðar á landinu, m.a. í öðrum söfnum.

4. grein.

Alla þá muni og verðmæti, er safninu berast, skal skrásetja vandlega, merkja og koma í svo trygga vörslu sem unnt er. Hvorki má gefa né selja þá safngripi, sem safnið hefir eignast, en láta má þá í skiptum fyrir aðra gripi, liggi einróma samþykkt stjórnar safnsins fyrir, nema öðruvísi sé áskilið af gefanda/seljanda. Ekki er safninu skylt að veita viðtöku munum eða öðrum minjum sem sérstakar kvaðir fylgja um varðveislu.

Fasteignir safnsins má því aðeins láta af hendi að til þess sé samþykki 3/4 hluta atkvæða í atkvæðagreiðslu, sem boðað er til meðal allra íslenskra lyfjafræðinga, og taki a.m.k. helmingur þeirra þátt í atkvæðagreiðslunni.
Fasteignir safnsins má einungis veðsetja til þess að standa straum af viðgerðum eða viðbótum við fasteignir safnsins og einungis ef fyrir liggur einróma samþykki safnstjórnar.
Boða skal til atkvæðagreiðslunnar með eins mánaðar fyrirvara. Stjórn safnsins sér um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar.

5. grein.

Safnið hefir heimild til að varðveita hluta af safnminjum utan veggja safnsins, gefist ekki kostur á að flytja þær í aðsetur þess (sbr.3. grein) eða ef betur hentar að varðveita þær annars staðar. Ráðstöfun og meðferð slíkra minja skal þó bundin ákvörðunum stjórnar safnsins, eins og gildir um aðrar eignir þess (sbr. 4. grein).

6. grein.

Safnið er sjálfseignarstofnun með eigin stjórn og sjálfstæðan fjárhag.
Stjórnin fer með málefni stofnunarinnar og skal skipuð fimm mönnum og einum varamanni er allir skulu vera lyfjafræðingar og búsettir hérlendis. Minnst þrír þeirra skulu vera félagar í Lyfjafræðingafélagi Íslands. Stjórnin er kosin til fjögurra ára á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands af atkvæðisbærum félögum. Þess skal getið í fundarboði þegar stjórnarkjör til safnsins á að fara fram.

7. grein.

Stjórn safnsins heldur aðalfund á tímabilinu janúar til febrúar ár hvert. Á honum skal leggja fram drög að ársskýrslu, reikningsuppgjöri, fjárhags- og starfsáætlun fyrir komandi starfsár og leggja fyrir Lyfjafræðingafélag Íslands fyrir aðalfund þess. Svo og fyrir aðra, er leggja safninu til tekjur.

Á fyrsta fundi sínum eftir skipun kýs stjórnin sér formann, varaformann, ritara og gjaldkera. Endurskoðun reikninga safnsins annast kjörnir endurskoðendur Lyfjafræðingafélags Íslands. Stjórnin heldur fundi eftir því, sem þurfa þykir og ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála (sbr. þó 4. grein). Standi atkvæði jöfn, sker atkvæði formanns úr.

8. grein.

Tekjur safnsins eru árleg framlög Lyfjafræðingafélags Íslands, gjafir og styrkir. Auk þess tekjur, sem stjórn safnsins tekst að afla.

9. grein.

Stjórn safnsins er heimilt að ráða að safninu starfsmann eftir því, sem fjárhagur leyfir, til að vinna að söfnun minja, skrásetningu, forverndun, uppsetningu, safnvörslu og öðrum störfum. Starfsmanni er heimilt að sitja fundi safnsstjórnar og hefir hann þar tillögurétt og málfrelsi.

10. grein.

Stjórn safnsins skal leita samvinnu við Þjóðminjasafnið þegar þurfa þykir.

11. grein.

Verði nokkru sinni ákveðið að leggja safnið niður, skal Þjóðminjasafnið eða jafngildur aðili ráðstafa eignum þess. Fasteignir verða þó í því tilfelli eign Lyfjafræðingafélags Íslands.

12. grein.

Hollvinir geta allir orðið sem starfa eða hafa starfað sem lyfjafræðingar og einstaklingar með reynslu af safnastarfi.

Stjórn Lyfjafræðisafnsins tekur við tilnefningum félagsmanna um hollvini, heldur skrá yfir þá og hefur umsjón með verkefnum sem hollvinir vinna.

Hlutverk hollvina Lyfjafræðisafnsins er að aðstoða við uppbyggingu og rekstur safnsins.

Helstu verkefni hollvina eru:

  • Flokkun og skráning muna, mynda, bóka og tímarita í eigu safnsins
  • Gæsla á opnunartímum safnsins
  • Leiðsögn um safnið
  • Umsjón með heimasíðu safnsins

13. grein.

Samþykktum þessum verður aðeins breytt með samþykki 3/4 hluta atkvæða aðalfundar LFÍ. Ákvæði þessarar greinar taka þó ekki til 3 síðustu málsgreina í 4. grein.

Skipulagsskráin var fyrst samþykkt á aðalfundi LFÍ, 20. apríl 1985 en breytingar voru gerðar 2000, 2003 og 2015.