
Kjarakönnun lfí 2023
21. júní 2023
Launakönnun LFI 2023
LFI óskaði eftir kjarakönnun meðal félagsmanna sinna þar sem spurt væri um kjör þeirra í febrúar 2023 og árslaun 2022 ásamt nokkrum spurningum um störf þeirra. Notast var við sama spurningalista og úr fyrri kjarakönnunum LFÍ. Spurningalistinn var lagður fyrir alla félagsmenn LFÍ með því að senda tölvupóst með hlekk á könnunina á netfang þeirra.
Könnunin var send á netföng 419 félaga í Lyfjafræðingafélagi Íslands og af þeim svöruðu 230 félagsmenn, eða rétt tæplega 55%. Laun þeirra sem voru í 50 - 99% starfshlutfalli voru reiknuð upp í 100% starfshlutfall. Í skýrslu Félagsvísindastofnunar má sjá hvernig svör dreifast á hverri spurningu eftir bakgrunnsþáttum. Þar sem það á við eru einnig birt meðaltöl neðst í töflunum. Einnig eru laun greind eftir bakgrunnsþáttum. Bæði mánaðarlaun og árslaun eru greind og fyrir alla bakgrunnsþætti eru birtar tvær töflur fyrir hvora tegund af launagreiðslum.
Helstu niðurstöður könnunarinnar eru að laun hafa hækkað um 4-5% á ári síðan 2019. Laun hafa þó, að teknu tilliti til launavísitölu lækkað jafnt og þétt frá árinu 2010. Einnig kemur fram munur á milli kynja, sem áður hafði verið óverulegur. Gögnin voru einnig notuð til að setja upp launareiknivél, líkt og fyrir síðustu kannanir. Alls voru niðurstöður frá 189 einstaklingum voru notaðar til grundvallar módelinu fyrir reiknivélina.
Niðurstöður hennar benda til þess að laun karla séu að meðaltali um 88 þúsund krónum hærri en laun kvenkyns lyfjafræðinga og er marktækur munur þar á (p = 0.013). Einnig eru skýr merki þess að laun í iðnaði séu hærri en hjá hinu opinbera og apótekum (p > 0.001), en ekki er marktækur munur á milli apóteka og hins opinbera. Ekki fannst marktækur munur eftir búsetu á höfuðborgarsvæðinu og
úti á landi. Áhrif mismunandi þátta og marktækni þeirra má sjá í meðfylgjandi töflu

Launareiknivélina má finna hér og eru lyfjafræðingar hvattir til að kynna sér kjör sín í samanburði við sinn hóp. Kannanir fyrri ára má finna hér. Spurningar og ábendingar varðandi reiknivélina er hægt að senda á Reyni en á Kjaranefnd varðandi framkvæmd og niðurstöður könnunarinnar.