Beint í efni

Lög Lyfjafræðingafélag Íslands

Samþykkt á aukaaðalfundi LFÍ 5. desember 1999.

1. kafli

1. grein. - NAFN OG STJÓRN

Félagið heitir Lyfjafræðingafélag Íslands, skammstafað LFÍ (The Pharmaceutical Society of Iceland). Heimili félagsins og varnarþing er á Seltjarnarnesi. Um málefni LFÍ fjalla aðalfundur, stjórn félagsins svo og almennir félagsfundir.

2. grein. - HLUTVERK FÉLAGSINS

Hlutverk Lyfjafræðingafélags Íslands er:

 1. Að stuðla að heilbrigði og réttri lyfjanotkun.
 2. Að stuðla að faglegu starfi alls staðar þar sem lyf koma við sögu.
 3. Að efla þekkingu annarra heilbrigðisstétta og almennings á lyfjafræði og störfum lyfjafræðinga.
 4. Að gæta hagsmuna og standa vörð um réttindi félagsmanna og stuðla að bættum kjörum og aukinni starfsánægju þeirra.
 5. Að efla samheldni og samstarf meðal lyfjafræðinga.

3. grein.

Félagið vinnur að markmiðum sínum meðal annars með því að:

 1. Sameina alla lyfjafræðinga á Íslandi í eitt félag.
 2. Hafa frumkvæði að og áhrif á stefnumótun varðandi starfsvettvang lyfjafræðinga og lyfjamál almennt.
 3. Vera virkur málsvari í lyfjafræðilegum málum á opinberum vettvangi.
 4. Hafa áhrif á stefnumótun í menntamálum lyfjafræðinga.
 5. Stuðla að endurmenntun lyfjafræðinga.
 6. Gera kjarasamninga.
 7. Vera einstökum félagsmönnum til ráðgjafar og stuðnings.
 8. Taka þátt í alþjóðlegu samstarfi.
 9. Efla samstarf við aðrar heilbrigðisstéttir.
 10. Halda Dag lyfjafræðinnar.
 11. Stuðla að hópstarfi meðal félagsmanna um sérstök áhugamál innan lyfjafræðinnar (samanber samþykkt um áhugahópa).

2. kafli

4. grein.- FÉLAGAR

Allir sem lokið hafa háskólaprófi í lyfjafræði (MS eða sambærilegu) eða hafa hlotið starfsréttindi sem lyfjafræðingar eða aðstoðarlyfjafræðingar, eða lyfjafræðinemar sem hafa tímabundið leyfi til að gegna störfum aðstoðarlyfjafræðings eftir 4. námsár, geta orðið félagar í Lyfjafræðingafélagi Íslands, sbr. 9. grein.

5. grein. - FÉLAGSAÐILD

Almenn félagsaðild. Almennir félagar eiga aðild að öllum málum félagsins.
Félagsaðild án kjaraaðildar. Félagar án kjaraaðildar eiga aðild að öllum málum félagsins nema þeim málum sem heyra undir kjaranefnd sbr. 30. grein.
Félagar án kjaraaðildar eru lyfjafræðingar búsettir erlendis og lífeyrisþegar. Lyfjafræðingar búsettir erlendis og lyfjafræðingar sem eru lífeyrisþegar geta óskað eftir almennri félagsaðild og fer um slíkar umsóknir eins og umsóknir um inngöngu í Lyfjafræðingafélag Íslands, sbr. 9. gr.
Lyfjafræðingar sem önnur félög fara með kjarasamninga fyrir, sjálfstætt starfandi lyfjafræðingar og atvinnurekendur geta verið félagar í Lyfjafræðingafélagi Íslands án kjaraaðildar.
Þeir sem heyra undir 4 málsgr. þessarar greinar og óska ekki eftir almennri félagsaðild skulu senda skriflega umsókn þar að lútandi til skrifstofu félagsins. Fara skal með þessar umsóknir eins og umsóknir um inngöngu í Lyfjafræðingafélag Íslands, sbr. 9. gr.

6. grein. - AUKAFÉLAGAR

Þeir sem hafa BS próf í lyfjafræði frá Lyfjafræðideild HÍ og lyfjafræðinemar sem lokið hafa a.m.k. einu námsári í lyfjafræði geta orðið aukafélagar í Lyfjafræðingafélagi Íslands, svo og þeir sem lokið hafa prófi í lyfjafræði, enda þótt það hafi ekki verið viðurkennt hérlendis. Með umsóknir skal fara skv. 9. gr.

7. grein. - HEIÐURSFÉLAGAR

Stjórn félagsins getur útnefnt sérhvern þann heiðursfélaga, sem hún telur hafa leyst af hendi mikilvæg störf í þágu lyfjafræði og lyfjafræðinga. Til útnefningar heiðursfélaga þarf samhljóða atkvæði allra stjórnarmanna.
Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands getur veitt gullmerki fyrir vel unnin störf í þágu félagsins eða lyfjafræði.

8. grein. - INNTAKA FÉLAGA

Þeir sem óska eftir því að gerast félagar í Lyfjafræðingafélagi Íslands skulu sækja um aðild á heimasíðu LFÍ, afrit af prófskírteini sendist með.

9. grein. - AFGREIÐSLA UMSÓKNA

Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands fjallar um umsóknir um inngöngu í félagið. Samþykki stjórn umsókn samhljóða er inntaka umækjanda þar með endanlega samþykkt. Sé ágreiningur í stjórn um afgreiðslu umsóknar, tekur félagsfundur endanlega ákvörðun.

10. grein. - RÉTTINDI FÉLAGA

Félagar í Lyfjafræðingafélagi Íslands hafa einir rétt til að kenna sig við félagið og nota skammstöfunina FLFÍ (félagi í Lyfjafræðingafélagi Íslands) með nafni sínu. Allir félagar, sem ekki eru í vanskilum við félagið sbr. 24. gr., hafa atkvæðisrétt á félagsfundum. Félagar án kjaraaðildar hafa þó ekki atkvæðisrétt um málefni er heyra undir kjaranefnd, né hafa þeir rétt til setu í kjaranefnd eða þátttöku í starfi sem heyrir undir þá nefnd.
Aukafélagar hafa tillögurétt á félagsfundum en hafa hvorki atkvæðisrétt né kjörgengi og mega ekki kenna sig við félagið.

11. grein. - SKYLDUR FÉLAGA

Félagsmönnum er skylt að fara eftir lögum félagsins og siðareglum. Sérhver félagi er skyldur til að verða við kosningu til starfa í félaginu, nema gild forföll hamli, en getur neitað endurkjöri í jafn langan tíma og hann hefur gegnt störfum.

3. kafli

12. grein. - SKIPULAG

Æðsta vald í málefnum félagsins hefur aðalfundur. Stjórn félagsins stýrir starfsemi þess undir forystu formanns, en framkvæmdastjóri og starfslið skrifstofu félagsins annast dagleg störf.
Fastanefndir starfa innan félagsins að sérstökum málefnum, í samræmi við reglugerðir félagsins, ákvarðanir aðalfunda eða félagsfunda.
Félagið getur gerst aðili að öðrum samtökum með samþykki aðalfundar.

13. grein. - STJÓRN OG FRAMKVÆMDASTJÓRI

Stjórn félagsins er skipuð 5 félagsmönnum. Stjórnina skal kjósa bréflega í tengslum við árlegan aðalfund, til 2 ára í senn, þannig að annað árið skal kjósa formann og tvo meðstjórnendur og hitt árið tvo meðstjórnendur. Varamenn meðstjórnenda verða þeir sem hljóta næstflest atkvæði. Taka þeir sæti í forföllum kjörinna stjórnarmanna.
Stjórnin skiptir með sér verkum og kýs varaformann, gjaldkera og ritara úr sínum hópi á sínum fyrsta fundi, sem halda skal innan tveggja vikna frá stjórnarkjöri.

Stjórn hefur heimild til að bjóða lyfjafræðinema með aðstoðarlyfjafræðingsréttindi til að sitja fundi stjórnar sem áheyrnarfulltrúi með tillögurétt.

14. grein.

Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands ræður félaginu framkvæmdastjóra og ákveður starfssvið hans.

15. grein.

Á vegum Lyfjafræðingafélags Íslands er starfrækt Lyfjafræðisafn. Safnið er sjálfseignarstofnun með eigin skipulagsskrá og sjálfstæðan fjárhag.

16. grein. - AFL ATKVÆÐA Á STJÓRNARFUNDI

Á stjórnarfundi ræður afl atkvæða. Verði atkvæði jöfn skal atkvæði formanns ráða úrslitum

17. grein. - VARAMENN Á STJÓRNARFUNDUM

Forfallist formaður eða segi af sér tekur varaformaður sæti hans. Forfallist kjörinn meðstjórnandi eða segi af sér skal varamaður taka sæti hans.

18. grein. - LAUN OG ÞÓKNUN

Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands semur við framkvæmdastjóra félagsins um launakjör hans.
Aðalfundur ákvarðar þóknun til þeirra félagsmanna sem starfa fyrir félagið í stjórnum, nefndum eða að sérstökum verkefnum.

19. grein. - AÐALFUNDUR

Æðsta vald Lyfjafræðingafélags Íslands er í höndum aðalfundar. Aðalfund skal halda í marsmánuði ár hvert.
Dagskrá aðalfundar skal kynnt í fundarboði, svo og allar tillögur, sem þurfa samþykki aðalfundar samkvæmt félagslögum. Slíkar tillögur frá félagsmönnum skulu hafa borist stjórninni fyrir 15. febrúar. Í upphafi aðalfundar skal kosinn fundarstjóri og fundarritari. Ef kosning er bréfleg skipar fundarstjóri 2 félagsmenn til að annast talningu þeirra atkvæða á aðalfundi.
Á dagskrá aðalfundar skal vera:

 1. Skýrslur um störf félagsins á liðnu starfsári.
 2. Reikningsskil.
 3. Starfs- og fjárhagsáætlun og ákvörðun félagsgjalda.
 4. Úrslit kosninga kunngerð.
 5. Kjör fastanefnda skv. gildandi reglum.
 6. Kjör skoðunarmanna ársreikninga.
 7. Lagabreytingar.
 8. Önnur mál.

Allar skýrslur sbr. 1. mgr. 3. tl. skulu liggja fyrir a.m.k. viku fyrir aðalfund.
Reikningsár félagsins, sem og sjóða á vegum þess, er almanaksárið.

20. grein. - AUKAAÐALFUNDUR

Aukaaðalfund skal kalla saman, þegar stjórninni þykir ástæða til eða þegar 10% félaga óska þess skriflega.

21. grein. - LÖGMÆTI FUNDA

Aðalfundir og aukaaðalfundir eru lögmætir, ef til þeirra er boðað bréflega eða með rafrænum hætti með 14 daga fyrirvara. Fundarboði skal fylgja kjörseðill vegna stjórnarkjörs og annars kjörs sem fram þarf að fara.

22. grein. - AFL ATKVÆÐA

Afl atkvæða ræður úrslitum í félaginu. Til breytinga á lögum félagsins þarf þó 2/3 atkvæða þeirra félaga sem sækja fundinn.

23. grein. - FÉLAGSFUNDIR

Félagsfundi skal halda, þegar stjórnin telur þurfa, eða 5% félagsmanna krefjast þess skriflega og geta skal um tilefni fundar. Boði stjórnin ekki slíkan fund innan viku frá því að henni hefur borist krafan, geta þeir, sem fundar óska, sjálfir boðað til hans. Sá sem boðar til fundar skal í upphafi hans stinga upp á fundarstjóra og fundarritara.
Stjórnin getur boðið gestum á fundi félagsins. Hver félagi getur með leyfi formanns boðið gestum á félagsfundi. Stjórn getur og ákveðið að einstakir fundir séu opnir almenningi og auglýst þá samkvæmt því. Hvern félaga skal boða skriflega til fundar og geta umræðuefnis í fundarboði.
Félagi, sem flytur erindi eða skýrslu á fundi í Lyfjafræðingafélagi Íslands, skal láta stjórninni í té ritaðan útdrátt af því, er hann flytur, ef stjórnin óskar þess.
Umræður á fundum skulu skráðar af fundarritara í fundargerðarbók.
Fundargerð skal bóka og bera upp til samþykktar í fundarlok. Þyki fundarstjóra efni til, getur hann frestað því til næsta fundar.
Stjórn félagsins getur látið birta í TUL erindi og skýrslur, sem fluttar eru á fundum og útdrátt úr umræðum.
Án samþykkis félagsstjórnar má engar skýrslur birta um það, sem fram hefur farið á fundi.

4. kafli

24. grein. - FJÁRMÁL

Félagsgjöld
Aðalfundur ákveður félagsgjöld, að fengnum tillögum stjórnar. Félagsgjöld skulu greidd mánaðarlega, nema sérstaklega sé samið um annað við stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands. Lendi félagsmaður í vanskilum með árgjald sitt er stjórninni heimilt að láta hann bera innheimtukostnað, auk vaxta. Það teljast vanskil ef félagsmaður hefur ekki greitt félagsgjöld í 3 mánuði eða lengur.
Skuldi félagsmaður félagsgjöld, getur stjórnin fellt nafn hans af félagaskrá að undanfenginni skriflegri viðvörun. Félagsmaður öðlast rétt á ný, ef hann greiðir upp skuldir sínar við félagið.

25. grein. - HLUTFALL FÉLAGSGJALDA

Almennir félagar greiða fullt félagsgjald og einnig aukafélagar meðan þeir eru starfandi. Félagar án kjaraaðildar greiða 2/3 félagsgjalda.Félagar búsettir erlendis, lífeyrisþegar og aukafélagar greiða 1/3 félagsgjalds. Heiðursfélagar greiða ekki félagsgjöld. Þriðjungur af félagsgjöldum þeirra sem hafa fulla félagsaðild rennur í kjarasjóð.

26. grein. - LÆKKUN EÐA NIÐURFELLING FÉLAGSGJALDA

Stjórn félagsins getur lækkað eða fellt niður félagsgjöld hjá einstökum félögum, ef henni þykja sérstakar ástæður mæla með því, t.d. ef laun félaga hafa lækkað verulega, vegna aldurs, sjúkleika, náms eða af öðrum orsökum.

27. grein. - SKIPTING Á REKSTRARKOSTNAÐI Lyfjafræðingafélags Íslands

Rekstrarkostnaður félagsins er greiddur úr félagssjóði. Kjarasjóður stendur straum af kostnaði vegna starfa kjaranefndar.

28. grein. - REIKNINGAR OG ENDURSKOÐUN.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar félagsins skulu settir upp af löggiltum endurskoðanda og endurskoðaðir af tveimur félagskjörnum skoðunarmönnum. Reikningar skulu liggja frammi minnst viku fyrir aðalfund og bornir fram til samþykktar á fundinum.

29. grein. - VARSLA SJÓÐA Lyfjafræðingafélags íslands

Allir sjóðir félagsins, að undanskildum sjóðum sem heyra undir kjaranefnd, skulu vera í vörslu stjórnar Lyfjafræðingafélags Íslands og skal hún sjá um að þeir séu ávaxtaðir á tryggan hátt. Um sérhvern sjóð félagsins skal gilda reglugerð sem samþykkta skal á aðalfundi og um fjallað eins og lög félagsins.

5. kafli

30. grein. - KJARANEFND

Lyfjafræðingafélag Íslands gerir kjarasamninga fyrir þá félagsmenn sem hafa almenna félagsaðild. Kjaranefnd Lyfjafræðingafélags Íslands annast gerð kjarasamninga. Kostnaður við störf kjaranefndar skal greiddur úr kjarasjóði. Kjaranefnd kemur ekki fram opinberlega í nafni Lyfjafræðingafélags Íslands nema með samþykki stjórnar félagsins.
Kjarasjóður, sjúkrasjóður og orlofssjóður eru í vörslu kjaranefndar og skal hún sjá til að þeir séu ávaxtaðir á tryggan hátt.

6. kafli

31. grein. - FASTANEFNDIR

Um fastanefndir félagsins skulu samdar reglugerðir. Þær skulu bornar fram til samþykktar á aðalfundi og fjallað um þær eins og lög félagsins.

32. grein. - Siðanefnd

Siðanefnd er kosin í almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund til tveggja ára í senn. Í nefndinni eru þrír nefndarmenn og þrír til vara.

33. grein. - Kjaranefnd

Í kjaranefnd skulu sitja 6 félagsmenn sem kosnir eru fyrir aðalfund með almennri bréflegri eða rafrænni kosningu til þriggja ára í senn. Nefndin kýs formann úr sínum hópi og nefndarmenn skipta með sér verkum. Kjaranefnd skipar í samninganefndir sem heyra undir kjaranefnd. Undir kjaranefnd heyra stjórn sjúkrasjóð og orlofssjóðs. Til stjórnar sjúkrasjóðs skal kjósa einn félagsmann og til stjórnar orlofssjóðs skal kjósa tvo félagsmenn með almenri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund til þriggja ára í senn. Ásamt kjörnum fulltrúum í stjórn sjúkrasjóðs og stjórn orlofssjóðs skal einn nefndarmaður sitja í hvorri stjórn.

34. grein. - Kjörnefnd

Formaður kjörnefndar er kosinn árlega á aðalfundi. Formaður velur aðra nefndarmenn, minnst fjóra og skal tilkynna stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands um valið innan 30 daga frá aðalfundi.

35. grein. - Fræðslu- og skemmtinefnd

Formaður fræðslu- og skemmtinefndar er kosinn almennri bréflegri eða rafrænni kosningu til tveggja ára og velur með sér minnst fjóra samstarfsmenn. Formaður nefndarinnar skal tilkynna stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands um valið innan 30 daga frá aðalfundi.

36. grein. - Sjóðastjórn

Sjóðastjórn fer með fræðslusjóð og vísindasjóð. Í sjóðastjórn sitja fimm stjórnarmenn og skal gjaldkeri Lyfjafræðingafélags Íslands vera einn þeirra. Kjósa skal fyrir aðalfund með bréflegri eða rafrænni kosningu tvo félagsmenn í sjóðastjórn til þriggja ára. Stjórnin kýs formann úr sínum hópi.

37. grein. - Safnstjórn

Safnstjórn skal skipuð fimm mönnum og einum varamanni er allir skulu vera lyfjafræðingar og búsettir hér á landi. Minnst þrír þeirra skulu vera félagar í Lyfjafræðingafélagi Íslands.
Stjórnin er kosin til fjögurra ára á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands af atkvæðisbærum félögum. Þess skal getið í fundarboði þegar stjórnarkjör til safnsins á að fara fram.

38. grein. - Laganefnd

Kjósa skal þrjá nefndarmenn almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund, til tveggja ára í senn.

7. kafli

39. grein. - ALLSHERJARATKVÆÐAGREIÐSLA

Stjórn félagsins getur látið fara fram allsherjaratkvæðagreiðslu þegar henni þykir ástæða til. Með allsherjaratkvæðagreiðslu má taka ákvörðun um öll þau mál, sem stjórnin ákveður. Til samþykktar tillögu við slíka atkvæðagreiðslu þarf einfaldan meirihluta.
Allsherjaratkvæðagreiðsla fer fram bréflega eða með rafrænum hætti og skal senda öllum félagsmönnum kjörgögn og þær tillögur, er greiða skal atkvæði um, og tilkynna skilafrest á atkvæðaseðlum. Frestur þessi skal ekki vera skemmri en 3 vikur.
Atkvæðaseðlar skulu sendir til félagsins. Þegar skilafrestur er útrunnin, skal stjórnin telja atkvæðin. Stjórn félagsins skal birta úrslit allsherjaratkvæðagreiðslu með því að senda öllum félagsmönnum skriflega tilkynningu um úrslitin.

40. grein. - ÚRSÖGN

Úrsögn úr félaginu skal tilkynna stjórn félagsins skriflega með minnst fjögurra mánaða fyrirvara.

41. grein. - BROTTVIKNING

Brjóti félagsmaður lög eða aðrar samþykktir félagsins, eða komi á annan hátt þannig fram, að ekki samræmist markmiðum félagsins eða heiðri stéttarinnar, getur siðanefnd félagsins veitt honum áminningu eða lagt til að honum verði vikið úr félaginu, enda hafi viðkomandi félagsmanni verið gefinn kostur á að leggja fram skriflega greinargerð máli sínu til varnar. Til að slík tillaga teljist samþykkt þarf hún að hljóta staðfestingu stjórnar félagsins. Ákvörðun um brottvikningu má alltaf skjóta til félagsfundar sem hefur úrslitavald í málinu.

42. grein. - SKULDIR FÉLAGSMANNA

Skuld félaga fellur ekki niður við brottvikningu né úrsögn úr félaginu.

43. grein. - LAGABREYTINGAR

Breytingar á lögum þessum má eingöngu gera á aðalfundi.
Tillögur um lagabreytingar, sem leggja á fyrir aðalfund, skulu birtar í fundarboði.
Til lagabreytinga þarf 2/3 greiddra atkvæða. Lagabreytingar skulu birtar félagsmönnum innan 60 daga frá því þær voru samþykktar.

44. grein. - FÉLAGSSLIT

Félaginu verður því aðeins slitið, að félagsslitin séu samþykkt á sama hátt og gildir um lagabreytingar. Aðalfundur tekur ákvörðun um ráðstöfun eigna félagsins.

GILDISTÖKUÁKVÆÐI

Breytingar gerðar á 2. kafla Félagar, 4. og 6. grein á aðalfundi félagsins 2015.

Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2000 og falla þá jafnframt úr gildi eldri lög Lyfjafræðingafélags Íslands eins og þeim var síðast breytt á aðalfundi félagsins 1999. Jafnframt falla úr gildi Starfsreglur deildar apótekslyfjafræðinga í LFÍ, Samþykktir deildar sjúkrahúslyfjafræðinga í LFÍ og Samþykkt deildar háskólalyfjafræðinga í LFÍ.

Samþykkt á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 5. desember 1999.

Breyting gerð á 8. grein á aðalfundi félagsins 2017.

Breytingar gerðar á 2. kafla, Félagar 4. grein og Heiðursfélagar 7. grein á aðalfundi félagsins 2018.

Breytingar gerðar á 3. kafla, Stjórn og Framkvæmdastjóri, 13. grein á aðalfundi félagsins 2019.

Breytingar gerðar á 3. kafla 13., 19. og 21. grein, 5. kafla 30. grein, 6. kafla 32., 33., 35., 36., 37. og 39. grein og 7. kafla 40. grein á aukaaðalfundi félagsins 2021.  

Breytingar gerðar á 1. kafla 3. grein, 3. kafla 19. grein, 4. kafla 27. grein og 6. kafla 37. grein og síðari greinum á aðalfundi félagsins 2022.