Reglugerðir um siðanefnd LFÍ
1. grein.
Á vegum Lyfjafræðingafélags Íslands starfar þriggja manna siðanefnd sem kosin er almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund, til tveggja ára í senn þannig að annað árið er kosinn einn maður og hitt árið tveir. Varamenn skulu vera jafnmargir og kosnir á sama hátt og til jafn langs tíma. Fyrsti varamaður er sá sem lengst er síðan var kosinn og ef þeir eru tveir þá sá sem fleiri hlaut atkvæði.
Nefndin skiptir með sér verkum.
2. grein.
Hlutverk siðanefndar er að skera úr um hvort lyfjafræðingar hafi brotið þær siðareglur sem gilda hjá Lyfjafræðingafélagi Íslands.
3. grein.
Siðanefnd tekur fyrir erindi frá sjúklingum og aðstandendum þeirra, stjórnum félaga lyfjafræðinga, öðrum lyfjafræðingum, öðru heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisyfirvöldum.
4. grein.
Siðanefnd vísar máli frá með rökstuðningi telji hún mál sem skotið er til hennar sér óviðkomandi.
Telji siðanefnd mál sem til hennar hefur verið skotið heyra undir almenna dómstóla, vísar hún því til stjórnar Lyfjafræðingafélags Íslands til frekari aðgerða.
5. grein.
Sé deilumáli skotið til siðanefndar, skal hún leitast við að ná sáttum milli deiluaðila.
6. grein.
Formaður siðanefndar kallar nefndina saman og stjórnar fundum. Hann sér um að málsaðilum séu kynntir málavextir og þeir beðnir um að leggja fram rök sín og málsgögn. Meginreglan er, að aðilar fái aðeins tvisvar að gera grein fyrir máli sínu. Þó má gera þar á undantekningar, ef ný viðhorf koma fram í síðari umferð og gera frekari málflutning æskilegan og eðlilegan að mati nefndarinnar.
7. grein.
Aðilum er skylt að gefa nefndinni sem fyllstar upplýsingar, munnlegar og/eða skriflegar eftir ósk hennar. Sé aðili forfallaður, má hann láta annan lyfjafræðing mæta fyrir sig. Ennfremur má aðili mæta með lögfræðing sér til aðstoðar sé hann kvaddur fyrir nefndina. Honum er einnig heimilt að leggja fram skriflegan vitnisburð eða yfirlýsingar þriðja aðila.
8. grein.
Nefndin getur sjálf aflað sér upplýsinga og leitað þeirra hjá sérfróðum mönnum eða öðrum utan nefndarinnar. Málsaðilum skulu kynntar slíkar upplýsingar, áður en úrskurður er kveðinn upp. Siðanefnd getur leitað álits lögfræðings telji hún það nauðsynlegt. Siðanefnd má og hafa lögfræðing sér til aðstoðar við öflun upplýsinga, og eins þegar málsaðilar eru kallaðir fyrir nefndina. Öllum félagsmönnum Lyfjafræðingafélags Íslands er skylt að veita nefndinni þær upplýsingar sem hún óskar eftir.
9. grein.
Þegar nefndin telur mál nægilega upplýst, skal hún kveða upp úrskurð eins fljótt og auðið er eða innan 4 vikna eftir að gagnaöflun telst lokið. Nefndin leitast við að úrskurða í máli áður en kjörtímabili hennar lýkur. Dragist uppkvaðning úrskurðar lengur fyrir nefndinni af óhjákvæmilegum ástæðum, skal málsaðilum tilkynnt um dráttinn og hann skal skýrður í niðurstöðu nefndarinnar. Úrskurðirnir skulu vera skriflegir og rökstuddir. Þess skal getið hvort nefndarmenn eru sammála um niðurstöðu. Fullskipuð nefnd kveður upp úrskurði og skulu þeir undirritaðir af þeim, sem þátt tóku í afgreiðslu viðkomandi máls. Afl atkvæða ræður úrslitum. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að lyfjafræðingur hafi brotið siðareglur lyfjafræðinga skal hún veita honum áminningu. Birta skal úrskurð Siðanefndar í Tímariti um lyfjafræði eða á vefsvæði þess nema Siðanefnd telji sérstakar ástæður mæla gegn því.
10. grein.
Siðanefnd skal halda gerðarbók um störf sín. Í gerðarbók skulu koma fram öll helstu atriði málsins, svo sem hvenær málið barst nefndinni, helstu rök málsaðila, sem og annarra sem til hefur verið leitað. Úrskurður og forsendur hans skulu einnig koma fram.
11. grein.
Siðanefnd tilkynnir málsaðilum og stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands um úrskurði og áminningar innan 4 vikna frá uppkvaðningu. Hún sér einnig um að úrskurðir og áminningar séu birtar í Tímariti um Lyfjafræði eða vefsvæði þess, eins fljótt og auðið er, eigi það við.
12. grein.
Um breytingar á reglugerð þessari fer á sama hátt og um lagabreytingar Lyfjafræðingafélags Íslands.
13. grein.
Reglugerð þessi var samþykkt á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 5. desember 1999 og öðlast gildi 1. janúar 2000.
Með breytingum samþykktum á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 28. mars 2012.
Breyting samþykkt á 1. grein reglugerðarinnar á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 2. júní 2021