Reglugerð sjúkrasjóða LFÍ
Sjóðurinn heitir Sjúkrasjóður Lyfjafræðingafélags Íslands. Heimili hans og varnarþing er að Safnatröð 3, Seltjarnarnesi.
Tilgangur sjóðsins er að veita sjóðfélögum fjárhagslegan stuðning vegna veikinda og slysa.
1. SJÓÐSAÐILD OG RÉTTINDI:
Sjóðfélagar eru þeir sem lögboðin eða samningsbundin iðgjöld hafa verið greidd fyrir í sjóðinn.
a) Almenn réttindi: Réttindi í sjóðnum eiga þeir sem greitt hefur verið fyrir í sjúkrasjóðinn í að minnsta kosti sex mánuði áður en þau tilvik eiga sér stað sem leitt geta til bótaréttar. Sjúkrasjóðurinn áskilur sér rétt til að leita staðfestingar á að umsækjandi hljóti ekki greiðslur úr öðrum sjúkrasjóði vegna sama tilviks. Umsækjanda ber að greina frá í hvaða sjóði greitt hefur verið vegna hans.
Sjóðfélagar sem skemur hefur verið greitt fyrir til sjóðsins en sex mánuði áður en bótaréttur skapast, eiga rétt á hlutfallslegum greiðslum úr sjóðnum. Réttindi til styrks úr sjóðnum falla niður hafi greiðslur ekki borist í sjóðinn í 6 mánuði. Við útreikning bóta ber sjóðnum ekki skylda til að taka tillit til iðgjaldagreiðslna sem inntar eru af hendi aftur í tímann.
b) Við starfslok: Sjóðfélagar halda fullum réttindum til allra bóta í 12 mánuði eftir að þeir láta af störfum og fara á lífeyri. Að þeim tíma liðnum falla réttindi niður. Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir til lengri tíma en þriggja mánaða.
2. UMSÓKNIR OG REGLUR:
a) Umsóknir: Sækja þarf um styrk til sjóðsins á rafrænu formi á heimasíðu LFÍ. Styrkumsóknir eru að jafnaði afgreiddar einu sinni í hverjum mánuði. Umsóknir sem berast fyrir 20. hvers mánaðar eru að jafnaði afgreiddar í lok þess mánaðar.
b) Afgreiðsla umsókna: Stjórn sjóðsins og starfsmenn hans skulu fara með allar umsóknir um afgreiðslu úr sjóðnum sem trúnaðarmál. Afgreiðsla sjóðsins skal vera á skrifstofu LFÍ.
c) Gögn: Nauðsynleg gögn verða að liggja fyrir til að sjóðfélagi geti fengið greitt úr sjóðnum. Þessi gögn eru:
Með umsókn um sjúkradagpeninga: Læknisvottorð og staðfesting vinnuveitanda hvenær samningsbundinni/lögboðinni launagreiðslu lauk.
Stjórn sjóðsins getur óskað frekari gagna til upplýsinga um málsatvik hjá umsækjanda telji hún þörf á því.
d) Framhaldsumsókn um sjúkradagpeninga: Þegar sótt er um framhaldsgreiðslu sjúkradagpeninga þarf sjóðfélagi að skila inn tilkynningu um óvinnufærni í hverjum mánuði, auk læknisvottorðs þar sem kemur fram eðli sjúkdóms og gangur meðferðar.
e) Staðgreiðsla skatta.
Staðgreiðsla skatta er tekin af öllum styrkfjárhæðum. Ef iðgjöld sjóðfélaga eru lægri en 1.500 kr á mánuði getur sjóðfélagi aðeins fengið greiddan hálfan styrk frá sjóðnum.
3. SJÚKRADAGPENINGAR VEGNA ÓLAUNAÐRAR FJARVERU FRÁ VINNU:
Sjúkradagpeningar eru greiddir til viðbótar sjúkradagpeningum frá Sjúkratryggingum Íslands, og lífeyrisgreiðslum.
Samanlagðar greiðslur sjóðsins og ofangreindra aðila skulu þó aldrei nema hærri fjárhæð en það tekjutap sem hefur orðið og áskilur sjóðurinn sér rétt til að skerða sjúkradagpeninga því til samræmis.
a) Veikindi eða slys sjóðfélaga: Dagpeninga skal greiða frá þeim tíma að samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu atvinnurekanda lýkur í allt að 120 daga, helga daga jafnt sem virka. Sjóðstjórn er heimilt að greiða hluta dagpeninga ef sjóðfélagi getur ekki vegna sjúkdóms eða slyss stundað fulla vinnu.
Sjóðstjórn er heimilt að lengja greiðslutíma dagpeninga, ef hún telur brýna nauðsyn til og fjárhagur sjóðsins leyfir í allt að 90 daga til viðbótar.
Eftir að sjóðfélagi hefur fullnýtt rétt sinn til greiðslna úr sjúkrasjóði hverju sinni og greiðslum dagpeninga úr sjóðnum lýkur, öðlast sjóðfélagi ekki rétt á greiðslum úr honum á ný fyrr en sex mánuðir eru liðnir frá því hann síðast hlaut greiðslur úr sjóðnum. Sjúkradagpeningar eru ekki greiddir lengur en í 810 daga alls fyrir hvern sjóðfélaga.
b) Langvarandi veikindi maka og/eða barna: Sjóðurinn greiðir bætur í formi dagpeninga í allt að 2 mánuði vegna veikinda maka og/eða 3 mánuði vegna veikinda barns enda missi sjóðfélagi launatekjur vegna þeirra. Hér er litið svo á að vegna langvarandi veikinda sé launatap orðið 10 virkir dagar eða meira áður en sjóðfélagi getur sótt um greiðslu dagpeninga.
c) Upphæð dagpeninga: Upphæð dagpeninga skal nema 80% af grunni inngreiðslna í sjóðinn miðað við meðalinnborgun síðustu 12 mánuði áður en réttur til dagpeninga skapast. Þó að hámarki 500þús kr á mánuði.
d) Annað: Þegar alvarleg veikindi eða slys ber að höndum sem sjóðstjórn metur til fjárhagslegs tjóns fyrir heimili sjóðfélaga er heimilt að veita viðkomandi sérstakar bætur.
4. FÆÐINGARSTYRKUR:
Veittur er styrkur að fjárhæð kr. 125.000 til hvers sjóðfélaga vegna fæðingar barns/barna.
Veittur er styrkur vegna andvana fæðingar barns eftir 22. viku meðgöngu.
Sækja þarf um innan árs frá fæðingu eða ættleiðingu barns. Fæðingarstyrkur er veittur til foreldris gegn framvísun fæðingarvottorðs, staðfestingar á fæðingu eða vottorðs um skráningu barns í þjóðskrá.
5. HEILBRIGÐISSTYRKUR:
Veittur er styrkur að hámarki að fjárhæð kr. 30.000 á hverju 36 mánaða tímabili vegna útlagðs kostnaðar félagsmanns (eingöngu fyrir félagsmann, ekki börn eða maka):
- til kaupa á gleraugum/linsum
- vegna aðgerða á augum
- til kaupa á heyrnatækjum
- vegna sálfræðiþjónustu
vegna frjósemisaðgerðar
6. LÍKAMSRÆKTARSTYRKUR:
Veittur er styrkur vegna líkamsræktar/íþróttaiðkunar að hámarki kr. 20.000 á hverju 12 mánaða tímabili.
Styrkurinn er einungis veittur til líkamsræktar/íþróttaiðkunar en ekki til kaupa á tækjum eða öðrum búnaði til heilsuræktar.
7. ÖNNUR ATRIÐI:
Sjóðurinn ver ákveðnum hluta fjár til kaupa á starfstengdri örorkutryggingu eða getur stofnað til samninga við aðra sjúkrasjóði sem leiði til hagsbóta fyrir sjóðfélaga.
a) Eignir sjóðsins: skulu ávaxtaðar samkvæmt fjárfestingarstefnu sem samþykkt er af stjórn sjúkrasjóðsins.
b) Tekjur sjóðsins eru:
- Lögboðin eða samningsbundin iðgjöld atvinnurekenda til sjóðsins.
- Vaxtatekjur og annar arður.
- Gjafir, framlög og styrkir.
- Aðrar tekjur sem stjórn sjúkrasjóðsins kann að ákveða hverju sinni.
c) Ábyrgð stjórnar: Stjórn Sjóðsins skal ávallt gæta þess að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Fimmta hvert ár að minnsta kosti skal stjórn sjóðsins fá óháðan tryggingafræðing eða löggiltan endurskoðanda til þess að meta framtíðarstöðu sjóðsins og hvort sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar. Einnig er sjóðstjórn skuldbundin til að leggja í slíkt mat við allar meiriháttar breytingar á reglugerð. Mat þetta skal lagt fyrir stjórn sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal, í samvinnu við kjaranefnd, leggja fram árlega til samþykktar á aðalfundi tillögu um hversu hátt hlutfall eða upphæð af sjúkrasjóði verður varið í tryggingar.
d) Þegar farsóttir geisa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir upphæð bóta ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.
e) Skipun stjórnar: Kjaranefnd LFÍ útnefnir einn meðlim kjaranefndar í stjórn sjúkrasjóðsins og einn skal kosinn í almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund. Skipan í stjórn sjóðsins skal vera til 3 ára í senn. Auk þess er gjaldkeri LFÍ í stjórn sjóðsins. Framkvæmdastjóri LFÍ og/eða fulltrúi hans skulu sitja stjórnarfundi og eru þeir starfsmenn sjúkrasjóðsins. Stjórnarfundir skulu vera haldnir í janúar hvert ár og síðan eftir þörfum.
f) Umsýsla og þóknun: Framkvæmdastjóri LFÍ ber ábyrgð á daglegri umsýslu sjóðsins.
Sjóðurinn greiðir allt að 5% af tekjum sínum til LFÍ vegna umsýslu og þóknunar.
g) Ársreikningur: Reikningar sjóðsins skulu lagðir áritaðir fyrir aðalfund. Endurskoðendur LFÍ eru jafnframt endurskoðendur sjóðsins. Reikningsár sjóðsins er það sama og LFÍ.
GILDISTAKA:
Reglugerð þessi var samþykkt á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands, 18. maí 2015.
Breytingar á reglugerð skulu samþykktar á aðalfundum Lyfjafræðingafélags Íslands.
Reglugerð þessi tekur gildi 1. júlí 2015.
Breyting var gerð á reglugerðinni á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands, 22. mars 2017 þegar bætt var inn grein 4. Fæðingarstyrkur.
Breytingin tekur gildi 1. júlí 2017 og gildir um börn sem fædd eru eða ættleidd frá og með 1. janúar 2017.
Breyting gerð á 4. lið FÆÐINGARSTYRKUR á aðalfundi félagsins 14. mars 2018.
Breyting gerð á reglugerðinni á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands, 20. mars 2019, þegar 5. grein ÖNNUR ATRIÐI varð að 7. grein ÖNNUR ATRIÐI og bætt var inn greinum 5. GLERAUGNASTYRKUR og 6. LÍKAMSRÆKTARSTYRKUR . Breytingin tekur gildi 1. maí 2019.
Breyting gerð á 7. grein reglugerðarinnar e) lið á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 2. júní 2021
Breyting gerð á 3. grein reglugerðarinnar a) lið og 5. grein reglugerðarinnar sem verður HEILBRIGÐISSTYRKUR á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 30. mars 2022