Beint í efni

Lyfjaskortur Ozempic – upplýsingar til lyfjafræðinga

17. janúar 2024

Til lyfjafræðinga sem starfa í apóteki:

Í ljósi þeirra aðstæðna að lyfið  Ozempic® verði í lyfjaskorti af og á út 2024 leitaði LFÍ svara hjá Lyfjastofnun og Vistor hver ákveður magnið sem berst til Íslands og á hverju byggir sú tala og hvort megi forgangsraða hópum með það markmið fyrir augum að þeir sem eru með sykursýki 2 og hefðu lyfjaskírteini fá lyfið afhent en hinir ekki? Í kjölfarið var sendur upplýsingapóstur sem ætti að hafa borist flestum.

Svörin sem bárust frá Vistor voru eftirfarandi:

Eins og þekkt er þá er alheimsskortur á lyfinu Ozempic® í öllum styrkleikum og er öllum birgðum til hvers lands stýrt  undir eftirliti frá EMA þar sem er reynt eftir fremsta megni að tryggja að lyfið fari til þeirra sem eru þegar á lyfinu við sykursýki af tegund 2.  

Þar sem við vitum nákvæman fjölda sem eru á lyfinu innan ábendingar, s.s. með lyfjaskírteini, þá er það útgangspunktur í útreikningi á því magni sem er sent til okkar í hverjum mánuði og verður þannig á árinu 2024. Við fáum ekki mikið magn af upphafsskammti (0,25 mg) til að auka ekki enn frekar á að nýir einstaklingar hefji meðferð á lyfi sem er nú þegar í skorti. Við bendum á Semaglutid í töfluformi, Rybelsus®, ef að hefja á meðferð með GLP1 viðtakaörva við sykursýki af tegund 2. Það eru til nægar birgðir af Rybelsus® á Íslandi.  

Það voru því sannarlega mjög góðar fréttir að leyfi fékkst frá framleiðanda til að setja Wegovy® á markað þann 1. október s.l. og þar með varð Ísland sjötta landið í heiminum til að setja lyfið á markað. Með þessu er komin lausn fyrir þá einstaklinga sem voru/eru að nota Ozempic utan ábendingar til þyngdarstjórnunar og spara þær birgðir af Ozempic sem okkur er úthlutað fyrir þá sem eru með sykursýki af tegund 2. Þess má geta að birgðum af Saxenda® er forgangsraðað einnig eftir fjölda lyfjaskírteina sem eru í gildi, það er ekki ætlunin að taka lyfið af markaði en vissulega verður birgðum forgangsraðað til landa sem hafa ekki Wegovy á markaði.  

Það skal tekið fram að gott samstarf hefur verið við Lyfjastofnun í skortinum, þá hefur komið í ljós að stofnunin hefur því miður ekki heimildir til aðgerða að svo stöddu, sem tryggja rétta notkun lyfs innan réttra ábendinga í skorti sem þessum. Nýjar áskoranir kenna okkur að finna leiðir til umbóta og þetta stendur til bóta. Núverandi staða eykur álag á alla sem sinna þjónustu við einstaklinga með þessa langvinnu sjúkdóma, offitu og sykursýki af tegund 2 og hafið þið staðið vaktina með sóma. Með samhentu átaki trúum við því að við getum gert þetta betur... saman. Við biðlum því til lækna, lyfjafræðinga og annarra sem koma beint að meðferð þessara viðkvæmu hópa á þessum lyfjameðferðum að hjálpast að í þessum skorti til að tryggja að fólk fái rétt lyf, innan réttra ábendinga.  

Nokkrar tillögur að samhentu verklagi:  

·        Beina fólki á að fá annan lyfseðil sem passar við ábendingu lyfjameðferðar.  

·        Ógilda lyfseðla sem eru utan ábendinga til að tryggja birgðir fyrir aðra sem eru innan ábendinga.

·        Fræða einstaklinga um þessar breytingar og af hverju.  

·        Tryggja rétta notkun á nýrri meðferð með fræðslu.  

Þessu bréfi er ætlað að upplýsa ykkur um stöðuna í birgðamálum á GLP1 viðtakaörvum frá framleiðandanum Novo Nordisk og á sama tíma er leitast við að auka skilning heilbrigðisstarfsfólks á fyrirkomulagi birgðastýringa í skorti. Óskað er eftir samhentu átaki allra til að koma í veg fyrir hlé í lyfjameðferð einstaklinga sem sannarlega eru á lyfjum innan ábendinga.  

Jafnframt viljum við þakka fyrir allar góðar ábendingar frá ykkur og samvinnu, og minna á að við erum ávallt tilbúin að koma til ykkar með fræðslu um lyfin og sjúkdómana.  

Með kærri kveðju,  Dagmar Ýr Sigurjónssdóttir, Markaðsstjóri Novo Nordisk á Íslandi

Lyfjastofnun lagði einnig áherslu á að þau hefðu ekki heimild til þess að forgangsraða hópum í því lagaumhverfi sem er í dag en til standi að breyta því verklagi í lyfjaskorti sjá drög í samráðsgátt, 7.gr . Upplýsingar sem birtust á heimasíðu lyfjastofnunnar eru einnig hagnýtar.

Einnig er vert að benda á breyttar reglur fyrir veitingu lyfjaskírteinis af Wegovy (Wegovy.pdf (ctfassets.net))sem mögulega hjálpar þeim sem ekki uppfylla skilyrði fyrir Ozempic.

Vakni fleiri spurningar hjá Lyfjafræðingum má hafa samband við lfi@lfi.is

Kær kveðja

Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir

Dagsetning
17. janúar 2024
Deila