Beint í efni

Samþykktir starfsmenntunarsjóðs

1.gr.

Sjóðurinn heitir Starfmenntunarsjóður Lyfjafræðingafélags Íslands og er með heimili og varnarþing á Seltjarnarnesi.

Sjóðurinn starfar með því skipulagi og markmiði sem segir í þessum reglum.

2. gr.

Tilgangur og markmið sjóðsins er annars vegar að efla starfsþróun lyfjafræðinga sem starfa hjá ríkinu með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni og hins vegar að auka möguleika stofnana á að þróa starfsvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til stofnana á hverjum tíma.

Markmiði sínu hyggst sjóðurinn ná með því að styrkja lyfjafræðinga til frekari menntunar og starfsþróunar og stofnanir ríkisins til framþróunar á sama grunni. Einnig styrkir sjóðurinn fræðslu- og þróunarverkefni hjá þeim aðilum og stofnunum sem að sjóðnum standa og fjármagnar þau verkefni sem sjóðsstjórn skipuleggur.

Um styrkúthlutanir fer eftir nánari reglum sem stjórn sjóðsins setur.

3. gr.

Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur fulltrúum, tveimur fulltrúum Lyfjafræðingafélags Íslands sem starfa hjá ríkinu og einum fulltrúa fjármála-og efnahagsráðuneytis.

Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meirihluti stjórnarmanna að vera henni fylgjandi.

Stjórn ákveður starfshætti sína að öðru leyti.

4. gr.

Sjóðurinn er fjármagnaður með iðgjöldum sem launagreiðandi greiðir til sjóðsins vegna hlutaðeigandi starfsmanna samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum hverju sinni. Sjóðurinn skal ávaxtaður á þann hátt sem sjóðsstjórn telur öruggast og hagkvæmasta á hverjum tíma.

Stjórn sjóðsins er heimilt að semja við aðra aðila um að sjá um daglega umsýslu hans, þar á meðal bókhald.

5. gr.

Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar skulu liggja fyrir í síðasta lagi í apríl ár hvert og skulu endurskoðaðir af endurskoðendum sem stjórn sjóðsins fær til verksins. Ársskýrsla og reikningar sjóðsins skulu árlega kynnt hlutaðeigandi aðilum.

6. gr.

Um önnur ónefnd atriði vísast til kjarasamnings fjármála- og efnahagsráðherra og Lyfjafræðingafélags Íslands sem í gildi er á hverjum tíma.

Breytingar á reglum þessum skulu hljóta samþykki kjarasamningsaðila.

Seltjarnarnesi, 1. júlí 2022

F.h. Lyfjafræðingafélags Íslands            F.h. hönd fjármála- og efnahagsráðherra