Beint í efni

Siðareglur lyfjafræðinga

Alþjóðasiðareglur lyfjafræðinga, F.I.P., International Code of Ethics, eru lagðar til grundvallar siðareglum Lyfjafræðingafélags Íslands.

Siðareglurnar eru ætlaðar lyfjafræðingum til íhugunar og stuðnings í daglegum störfum.

Lyfjafræðingur starfar að heilbrigðismálum með virðingu fyrir manninum og lífríkinu.
Starfi lyfjafræðinga fylgir ábyrgð gagnvart einstaklingi og samfélagi.

 • Lyfjafræðingur skal rækja starf sitt án manngreinarálits, bera virðingu fyrir  mismunandi menningarheimum og meðhöndla alla sem leita til þeirra um þjónustu með kurteisi og virðingu.
 • Lyfjafræðingur skal tryggja að öryggi, velferð og hagsmunir þess sem hann veitir faglega þjónustu séu höfð í fyrirrúmi og þjónustan sé innt af hendi af heiðarleika.
 • Lyfjafræðingi ber að viðhalda faglegri þekkingu sinni og endurnýja hana.
 • Lyfjafræðingur skal virða þagnarskyldu um alla vitneskju eða grun, sem hann í starfi sínu öðlast um sjúkdóma eða önnur einkamál skjólstæðinga sinna.
 • Lyfjafræðingi ber að rækja starf sitt af vandvirkni, samviskusemi og trúmennsku.
 • Lyfjafræðingur skal ekki taka að sér verk er skerðir sjálfstæði hans sem lyfjafræðings.
 • Lyfjafræðingur skal jafnt í starfi sem í einkalífi hafa virðingu stéttar sinnar í heiðri.
 • Lyfjafræðingur skal virða lög og reglur um störf lyfjafræðinga og siðareglur lyfjafræðinga.
 • Lyfjafræðingur skal virða ákvörðunarrétt sjúklinga.
 • Lyfjafræðingur skal sjá til þess að allar upplýsingar sem hann veitir almenningi og öðru heilbrigðisstarfsfólki séu áreiðanlegar, nákvæmar og hlutlausar. Einnig skal tryggja að þeim sé komið til skila á þann hátt að þær séu auðskiljanlegar.
 • Lyfjafræðingi ber að viðhalda trúnaðartrausti gagnvart heilbrigðisyfirvöldum.
 • Lyfjafræðingi ber að vinna með heilbrigðisstofnunum af sanngirni og jafnræði í viðleitni þeirra til þess að stuðla að heilsuvernd.
 • Lyfjafræðingi ber að rækta samvinnu innan stéttar sinnar og við aðrar stéttir. Lyfjafræðingur skal leitast við  að miðla faglegri þekkingu sinni með þátttöku í fræðslustarfi.
 • Lyfjafræðingur skal leitast við að taka þátt í störfum félagssamtaka lyfjafræðinga, innlendum sem erlendum, með það að markmiði að bæta starfsskilyrði stéttarinnar og ímynd hennar.
 • Lyfjafræðingi ber að tryggja að öðru starfsfólki sem falið er að vinna ákveðin verk sem falla undir ábyrgðarsvið lyfjafræðings hafi fullnægjandi þekkingu og getu til að vinna verkin á árangurs- og áhrifaríkan hátt.
 • Lyfjafræðingur skal tryggja eftir fremsta megni áframhaldandi faglega þjónustu til sjúklinga þrátt fyrir aðstæður sem stangast á við persónulegar siðfræðilegar skoðanir eða þegar lokun apóteks á sér stað.  Ef um verkfall er að ræða, skal lyfjafræðingur tryggja eftir bestu getu að almenningur hafi aðgang að lyfjafræðilegri þjónustu. 

Samþykktar á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 23. mars 2010.