Beint í efni

Reglugerð um sjóði í umsjón sjóðastjórnar

Reglugerð um sjóði í umsjón sjóðastjórnar

1. grein.

Sjóðirnir heita Fræðslusjóður og Vísindasjóður. Vísindasjóður er varasjóður í þeim tilvikum þar sem ekki er til nægjanlegt fé til úthlutunar úr Fræðslusjóði.

2. grein.

Aðeins félagar í LFÍ geta sótt um styrk úr sjóðunum.          

Úthlutun úr sjóðunum er í höndum sjóðastjórnar LFÍ, sem kosin er fyrir aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands.

3. grein.

Hlutverk sjóðanna er að styrkja:

  1. Námskeiðahald fyrir lyfjafræðinga í þeim tilgangi að bæta lyfjafræðilega þjónustu við almenning.
  2. Útgáfu upplýsingabæklinga um rétta og hagkvæma notkun lyfja.
  3. Verkefni sem stuðlað geta að betri og skilvirkari nýtingu lyfja.
  4. Hvert það verkefni sem að mati sjóðastjórnar hvetur til bættra starfshátta í lyfjafræði og lyfjafræðilegrar umsjár.
  5. Vísinda- og rannsóknarstörf sem og sí- og endurmenntun lyfjafræðinga með það að markmiði að efla þá í starfi.
4. grein.

Höfuðstóll Fræðslusjóðs er Lyfsölusjóður. Tekjur sjóðsins eru að jafnaði ávöxtunartekjur hans og skulu  þær leggjast við höfuðstól sjóðsins..
 
Úthlutunarfé Fræðslusjóðs á hverju ári má vera allt að 90% af tekjum (rauntekjum) síðasta árs.

Tekjur Vísindasjóðs eruframlag að tillögu stjórnar LFÍ til samþykktar á aðalfundi hverju sinni og gjafir og styrkir sem sjóðnum kunna að hlotnast. Tekið er mið af stöðu Fræðslusjóðs hverju sinni við ákvörðun framlags LFÍ í Vísindasjóð.

Úthlutunarfé Vísindasjóðs er öll upphæð á reikningi sjóðsins.

Það fé sem ekki er úthlutað úr sjóðum á árinu leggst við það fé sem kemur til úthlutunar á næsta ári.

5. grein.

Sjóðastjórn skal auglýsa eftir umsóknum um styrki tvisvar á ári. Styrkþegar skulu skila áfangaskýrslu/greinargerð um viðameiri verkefni til skrifstofu LFÍ. Sjóðastjórn getur fallið frá kröfu um skil á greinargerð.Í ársskýrslu skal gerð grein fyrir úthlutun úr sjóðum.

6. grein.

Ársskýrsla og endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fram á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands.

7. grein.

Stjórn sjóðsins skal setja sér skriflegar verklagsreglur um meðferð umsókna og skulu þær birtar á heimasíðu LFÍ.

8. grein.

Um breytingar á reglugerð þessari fer á sama hátt og um lagabreytingar Lyfjafræðingafélags Íslands.

9. grein.

Reglugerð þessi var samþykkt á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 5. desember 1999 og öðlaðist gildi 1. janúar 2000. Með breytingum samþykktum á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 23. mars 2007, breytingum samþykktum á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 23. mars 2010 og breytingum samþykktum á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 20. mars 2019. Breytingar samþykktar á aðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 30. mars 2022.