Reglugerðir um laganefnd LFÍ
1. grein.
Á vegum Lyfjafræðingafélags Íslands starfar laganefnd sem kosin er almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund og til 2 ára í senn. Þrír lyfjafræðingar sitja í laganefnd.
2. grein.
Hlutverk laganefndar er að vera stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands til ráðgjafar, sbr. 3. gr. Laganefnd getur einnig haft frumkvæði að því að einstök mál sem heyra undir verksvið nefndarinnar séu tekin til umræðu og afgreiðslu á félagsfundum eða hjá stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands.
Laganefnd leggur tillögur sínar fyrir stjórn eða félagsfund en kemur ekki fram fyrir hönd félagsins nema með samþykki stjórnar eða félagsfundar.
3. grein.
Verkefni laganefndar eru sem hér segir:
- Að vera stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands og félagsmönnum til ráðgjafar varðandi lög og reglugerðir félagsins. Laganefnd skal veita umsögn um tillögur að breytingum á lögum eða reglugerðum félagsins, áður en þær eru bornar undir félagsfund og hafa umsjón með að ákvæði í lögum og reglugerðum félagsins stangist ekki á.
- Að vera stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands til ráðgjafar varðandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem berast félaginu til umsagnar.
- Að hafa frumkvæði að umræðu og/eða gera tillögur um breytingar eða nýjungar á lögum og reglugerðum félagsins, sem og lögum og stjórnvaldsfyrirmælum er varða lyfjafræðinga og lyfjafræði.
4. grein.
Laganefnd er heimilt að leita lögfræðiálits telji hún þess gerast þörf. Áður en slíkt er gert skal þó liggja fyrir samþykki stjórnar Lyfjafræðingafélags Íslands eða félagsfundar, vegna þess kostnaðar sem öflun slíks álits getur haft í för með sér.
5. grein.
Um breytingar á reglugerð þessari fer á sama hátt og um lagabreytingar Lyfjafræðingafélags Íslands.
6. grein.
Reglugerð þessi var samþykkt á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 5. desember 1999 og öðlast gildi 1. janúar 2000.
Breyting samþykkt á 1. grein reglugerðarinnar á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 2. júní 2021