Beint í efni

Faghópur um sjúkrahúslyfjafræði LFÍ

Faghópur um sjúkrahúslyfjafræði innan LFÍ

Faghópur um sjúkrahúslyfjafræði hefur verið starfandi innan Lyfjafræðingafélags Íslands skv. samþykktum þess frá 2012 og starfar á grundvelli laga LFÍ. Fullgildir félagar geta allir félagar í LFÍ orðið sem áhuga hafa á sjúkrahúslyfjafræði. Fjöldi félaga 1. febrúar 2016 voru 51 og fjölgaði um 4 á árinu 2015. Búið er að efla Faghópinn enn frekar með því að opna fyrir möguleika á stofnun virkra undirhópa um sérsvið sjúkrahúslyfjafræðinnar.

Faghópur krabbameinslyfjafræðinga á Íslandi er starfandi undirhópur innan Faghóps um sjúkrahúslyfjafræði. Níu lyfjafræðingar á Íslandi eru félagar og í Evrópusamtökum um krabbameinslyfjafræði, European Society of Oncology Pharmacy (ESOP) og taka virkan þátt í verkefnum þess. Sjúkrahúsapótek LSH tekur þátt í MASHA, rannsókn ESOP á mengun af völdum blöndunar og gjafar krabbameinslyfja og vinnu við úrbætur á því sviði. Unnið er að því að koma á staðlaðri læknisskoðun fyrir þá sem vinna við blöndun og gjöf krabbameinslyfja á LSH. Einnig er unnið að bættum varúðarmerkingum á krabbameinslyfjum að fyrirmynd evrópskra reglna. Vakin var athygli á þörf á auknu öryggi og varúð við umsýslu um krabbameinslyf í erindi á Degi Lyfjafræðinnar 2015.

Faghópur um sjúkrahúslyfjafræði LFÍ er aðili að Samtökum Evrópskra sjúkrahúslyfjafræðinga, European Association of Hospital Pharmacists (EAHP). Innan EAHP starfa 34 aðildarlönd með yfir 18.000 sjúkrahúslyfjafræðingum. EAHP er sterkur bakhjarl fyrir sjúkrahúslyfjafræðinga á Íslandi og er samstarfið mjög gott í þeim fjölmörgu verkefnum sem þar eru og nýtast okkur hér heima, bæði faglega og fjárhagslega.

Fréttabréfið “EU Monitor” EAHP sendir reglulega frá sér fréttabréfið “EU Monitor” um það sem er helst að gerast innan sjúkrahúslyfjafræði í Evrópu. Félagsmenn fá fréttabréfið sent með tölvupósti, en það er einnig aðgengilegt á heimasíðu EAHP (www.eahp.eu).

European Journal of Hospital Pharmacy (EJHP). EAHP gefur út tímaritið EJHP í samstarfi við British Medical Journal (BMJ). EJHP kemur út reglulega og fá félagar Faghóps LFÍ fría áskrift að vef- og pappírsriti ef þeir þess óska. Félagar LFÍ eru hvattir til þess að birta rannsóknir sínar í EJHP, en einnig eru lyfjafræðingar hvattir til skrifa um jákvæða þróun og gagnsemi starfsemi sinnar á heilbrigðisstofnunum eða s.k. "Best Practices". EJHP nær til um 16.000 sjúkrahúslyfjafræðinga í Evrópu.