Reglugerð um kjaranefnd LFÍ
1. grein.
Hlutverk nefndarinnar er:
- Að vinna að bættum kjörum félagsmanna, gæta hagsmuna og réttinda þeirra gagnvart vinnuveitendum, yfirvöldum og öðrum er til greina kunna að koma.
- Að hafa umráð yfir og umsjón með sjóðum og eignum sem heyra undir Kjaranefnd.
- Að fara með mál er varða norrænt samstarf innan vébanda Norræna lyfjafræðingasambandsins, Nordisk Farmaceut - Union (NFU).
- Að fara með mál gagnvart atvinnuleysistryggingasjóði.
- Að annast úthlutun úr sjúkrasjóði í samvinnu við stjórn sjóðsins.
2. grein.
Félagar Kjaranefndar eru allir sem hafa almenna félagsaðild að Lyfjafræðingafélagi Íslands.
3. grein.
Við atkvæðagreiðslu um vinnustöðvun og samninga hafa þeir félagsmenn einir atkvæðisrétt sem starfa hjá vinnuveitanda sem aðild á að samningum.
Ef sérstaklega stendur á að dómi kjaranefndar, svo sem þegar vinnustöðvun stendur yfir eða er yfirvofandi, má boða til fundar með sólarhrings fyrirvara.
4. grein.
Félagsgjöld til Kjaranefndar fyrir næsta almanaksár eru ákveðin á aðalfundi. Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið.
Tekjur Kjaranefndar renna í:
- Kjarasjóð
- Kjaradeilusjóð.
- Orlofssjóð.
- Sjúkrasjóð.
Framlag í kjarasjóð er ákveðið á aðalfundi. Úr kjarasjóði skal greiða stofn- og rekstrarkostnað Kjaranefndar.
Framlag í kjaradeilusjóð er ákveðið á aðalfundi. Kjaradeilusjóð má nota til að bæta félögum Lyfjafræðingafélagsins launatap í kjaradeildu við vinnuveitendur. Heimilt er að styrkja aðildarfélög Norræna lyfjafræðisambandsins (NFU) með lánum eða gjöfum úr kjaradeilusjóði. Kjaradeilusjóður skal ávaxtaður á sem tryggastan hátt, þannig að innistæðan fylgi að innistæðan fylgi að minnsta kosti hækkun verðlags.
Tekjur orlofssjóðs eru samningsbundið framlag vinnuveitenda ásamt framlagi sem ákveðið er á aðalfundi. Eignum orlofssjóðs má ráðstafa til orlofsmála. Aðalfundur getur ákveðið að auka ráðstafanir til orlofsmála, enda séu tillögur um slíka ráðstöfun kynntar í aðalfundarboði.
Félagsmenn sem fá greiddar atvinnuleysisbætur halda fullum réttindum sínum og greiða ekki félagsgjöld af þeim.
Tekjur sjúkrasjóðs eru samningsbundið framlag vinnuveitenda.
5. grein.
Kjaranefnd er kosin í almennri bréflegri eða rafrænni kosningu fyrir aðalfund til þriggja ára í senn, endurkjör er heimilt. Kjaranefnd skipar í samninganefndir sem heyra undir kjaranefnd. Kjaranefnd fer með samningamál. Heimilt er að kalla til fleiri félagsmenn og afla sérfræðilegrar aðstoðar eftir þörfum.
Einn nefndarmaður í kjaranefnd skal sitja í stjórn sjúkrasjóðs og einn í stjórn orlofssjóðs.
6. grein.
Stjórn Kjaranefndar getur, innan þeirra takmarka er reglugerð þessi setur, skuldbundið félagið og ráðstafað eignum þess eftir ákvörðun félagsfundar.
7. grein.
Um breytingar á reglugerð þessari fer á sama hátt og um lagabreytingar Lyfjafræðingafélags Íslands.
8. grein.
Reglugerð þessi var samþykkt á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 5. desember 1999 og öðlast gildi 1. janúar 2000.
Breyting samþykkt á 5. grein reglugerðarinnar á aukaaðalfundi Lyfjafræðingafélags Íslands 2. júní 2021