Beint í efni

Gögn og Stafrænuvæðing 2023

19. nóvember 2023

Heilbrigðisþing 2023

Sigurbjörg Sæunn, formaður Lyfjafræðingafélagsins lýsti á dögunum eftir einhverjum til að fara í sinn stað á heilbrigðisþing ársins, sem að þessu sinni var haldið á ensku, vegna formennsku Íslands í Norðurlandaráði. Þingið fjallaði um gögn og stafrænuvæðingu (Data and Digitalization, en ég þýði yfir á íslensku í tilefni af nýliðnum degi íslenskrar tungu). Sigurbjörg Sæunn lokkaði með ókeypis mat. Ég beit á agnið, reyndar ekki út af matnum heldur meira til að hafa afsökun fyrir því að fara, þar sem talið var að bekkirnir yrðu þéttskipaðir. Ég þóttist vita að ég myndi hitta eitthvað af fólki sem ég þekkti frá gamalli tíð. Þingið brást ekki væntingum mínum. Þótt ég væri reyndar frekar lystarlaus (ekkert að matnum samt, greinilega alveg úrvals veisluþjónusta sem sá um hann).

Dagskrá þingsins má finna hér, - en ég mun í eftirfylgjandi texta lýsa því hvaða veganesti ég fór heim með af þessu þingi.

Forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson, var fyrstur í pontu og bauð gesti velkomna. Eins og jafnan hélt hann ræðu sem var bæði skemmtileg og innihaldsrík. Það eftirtektarverðasta í erindi forsetans fannst mér hvernig hann notaði heitupottafeðir eldriborgara á Álftanesi til að útskýra lýðheilsu. Forsetinn, sem vantar nú nokkuð upp á að vera eldri borgari, stundar auðheyrilega sundlaugarnar og heitupottana á Álftanesi og hann hann lýsti því hvernig eldri borgararnir sem hafa lokið langri starfsæfi og eru sestir í helgan stein stunda sundlaugarnar og heitupottana til að fá hreyfingu, til að fá samveru og til að leysa lífsgátuna og vandamál stór og smá. Hann lýsti því hvernig hæfileg virkni væri meðvirkandi til að halda heilsunni í lagi. Reyndar vék hann einnig að því að lausnir lífsgátunnar og vandamálanna sem fundnar væru í heitupottunum entust yfirleitt bara í sólarhring. Þess vegna þyrfti að fara aftur morguninn eftir. Forsetinn lýsti einnig mikilvægi gagna til að finna lausnir og boðaði að þeir sem á eftir sér fylgdu í pontu væru sérfróðari um til hvers nota mætti gögnin og myndu segja áhorfendum það. Og ef það hefði ekki verið ætlunin, þá væri það forsetaleg tilskipun að gera svo. Forsetinn sat síðan áfram í töluverðan tíma og hlusta á erindi, væntanlega til að fullvissa sig um að hinni forsetalegu tilskipun væri fylgt eftir.

Ráðherrann, Willum Þór Þórsson, var næstur í pontu og fékk 5 mínútur. Hann lýsti lauslega undirbúningi dagskrárinnar, sem var metnaðarfull og þéttskipuð. Einnig útskýrði ráðherrann hvers vegna þingið væri haldið á ensku.

Eftir þetta hófst hin fyrsta af 3 undirdagskrám, sú þeirra sem fjallaði um kerfislega nálgun og nálgun yfirvalda.

Færeyingurinn Bogi Eliasson hafði fengið það verkefni að lýsa því hvernig norræn heilbrigðisþjónusta yrði byggð upp á sjálfbæran hátt. Bogi starfar hjá Kaupmannahafnarstofnuninni um útlandarannsóknir svo að hann hefur ágætis innsýn í málið. Hann lýsti norrænu samstarfi og verkefni sem hann stýrir og byrjaði á að varpa fram nokkuð áhugaverðri spurningu, nefnilega um hvort við vildum besta heilbrigðiskerfið eða bestu heilsuna (heilbrigðasta þýðið, heilbrigðustu þjóðina). Það er nefnilega ekki öruggt að það fari saman. Hann taldi að við værum meira í því að bregðast við en að móta stefnu og að ekki væri víst að við værum að setja orkuna í réttu hlutina. Einnig kom hann með spakmæli um að sýn án aðgerða væri dagdraumar en aðgerðir á sýnar væri martröð.

Clayton Hamilton, frá Evrópuskrifstofu alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar lýsti mikilvægi gagna til framtíðar og þar var fátt sem kom á óvart fyrir rannsóknafólk í háskólum. Ég hvet þá sem eru í vafa um mikilvægi gagna til framtíðar til að horfa sjálfir á erindi Hamilton.

Kanadamaðurinn Eric Sutherland frá OECD lýsti gagnanotkun og dró skýrt fram hversu lítið gögn væru í raun notuð og hversu miklu meira mætti fá út úr notkun þeirra. Hann taldi fjárfestingu í uppbyggingu neta vænlegri til árangurs en hefðbundna fjárfestingu.

Persephone Douphi frá finnsku Heilsu- og velferðarstofnuninni lýsti samnýtingu gagna og samvinnu um notkun og endurnýtingu gagna.

Síðan steig í pontu Björgvin Ingi Ólafsson, sem veitt hefur heilbrigðisráðuneytinu ráðgjöf. Hann lýsti því hvernig gögn væru verðmætaskapandi í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Hann kom því reyndar skýrt að hversu snemma Ísland hefði verið með á gervigreindarbylgjunni, en íslenska er annað tungumálið sem ChatGPT tók inn, á eftir ensku. Hann talaði um eina uppsprettu sannleikans (single source of truth) og að ekki væri heppilegt að álykta út frá ófullkomnum gögnum. Hann sagði Ísland vilja vera fyrirmynd í gervigreindarmálum og að Ísland hefði kynnt þá hugmynd fyrir Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.

Sara Malkamäki frá finnska Nýsköpunarsjóðnum talaði um norræn gögn í evrópsku samhengi og nefndi meðal annars að túlkun GDPR persónuverndarreglnanna væri ögn misjöfn í mismunandi löndum, - væri semsagt ekki alls staðar eins. Sara talaði um að traust á yfirvöldum væri gott á Norðurlöndunum. Hún lýsti VALO verkefninu sem snýst um norrænar heilsufarsupplýsingar.

Dr. Huginn Þorsteinsson frá forsætisráðuneytinu talaði um þörfina fyrir stefnu varðandi gervigreind í heilbrigðiskerfinu. Hann lagði áherslu á mikilvægi trausts í því samhengi.

Næsta undirdagskrá var um nálgun á notkun gagna, hvernig samstarf leiðtoga í heilbrigðiskerfinu, rannsóknafólks og fólks í klínískri vinnu þyrfti til svo að gögn nýttust sem best.

Ingibjörg Eva Þórisdóttir frá Planet Youth var fyrst í pontu undir þeim dagskrárlið. Hún talaði um íslensku forvarnanálgunina og hvernig tekist hefði að draga úr unglingadrykkju á Íslandi, sem og notkun unglinga á öðrum vímuefnum. Hún setti upp á glæru að Ísland vissi hvernig fara ætti að þessu en að heimurinn vildi ekki hlusta, og þá fór nú aðeins um undirritaða, enda vön því að það verði vandræðalegt þegar Íslendingar koma með fullyrðingar sem þessar. En í ljós kom að konan hafði alls ekki fundið uppá því sjálf að halda þessu fram, heldur hafði málsmetandi útlendingur sagt þetta. Hún lýsti því hvernig leitað hefði verið að rótum vandans og ráðist á þær, og það hefði skilað árangri. Svo að nú væri íslenska nálgunin talin ágætis útflutningsvara. Ingibjörg Eva nefndi einnig að um leið og eitthvað væri normaliserað yrði það ósýnilegt.

Guðrún Ólafsdóttir frá Deloitte talaði um hvernig skipuleggja ætti vinnuafl með stafrænu byltinguna í huga. Hún dró ekki dul á að það væri ögrandi verkefni.

Dr. Sædís Sævarsdóttir frá Háskóla Íslands, Landspítala og deCODE talaði um einstaklingsbundna heilbrigðisþjónustu sem einnig má kalla sniðlæknisfræði (personalized medicine) frá norrænum sjónarhóli. Hún nefndi að stundum virkuðu kerfin ekki. Hún benti einnig á Coursera námskeið um sniðlæknisfræði frá norrænum sjónarhóli, sem á ensku heitir „Perzonalized Medicine from a Nordic Perspective“.

Dr. Thor Aspelund frá Háskóla Íslands talaði um að leysa hið óleysanlega, notkun gervigreindar og vélmenna í tengslum við mænuskaða. Hann lýsti gagnanotkun við þróun allskonar hjálpartækja fyrir mænuskaðaða, sem hefðu gert fólki kleyft að ganga aftur og sýndi nokkur dæmi.

Svava María Atladóttir frá Landspítala lýsti nálgunum á hnökralausa innleiðingu rafrænna lausna í klíníska vinnu. Hún lýsti Heilsugátt þannig að hún samþættaði öll gagnakerfin og öll tækin og lýsti mikilli hrifningu á Heilsugáttinni sem vettvangi fyrir fyrstu prófanir af ýmsum toga (pilot testing). Hún kom inn á hvort við treystum gögnunum og að það færi meðal annars eftir hvernig umsjón með þeim væri háttað. Einnig væru notendaviðmót og reynsla notenda mikilvæg.

Björn Zoega, forstjóri Karolinska spítalans, talaði um notkun gagna til að bæta afkomu/útkomu sjúklinga (patient outcomes). Hann lýsti því hvernig Karolinska hafði á 5-6 árum farið úr slökum gæðum og lágri framleiðni í ásættanleg gæði og framleiðni nú. Samkvæmt mati er Karolinska nú í fremstu röð spítala í heiminum en Björn var nú svosem ekkert að lýsa því, heldur tók einungis sænskan samanburð sem sýndi að Karolinska hafði farið nokkurn veginn úr miðjunni á toppinn á þessum 5-6 árum. Hann mælti með notkun gæðavísa og mælti með að styrkja fyrst norrænt samstarf áður en farið væri inn í evrópskt.

Í hádeginu hitti ég konu sem ég kannaðist við andlitið á, en kom ekki alveg fyrir mig þar og þá. Um var að ræða samstarfskonu til margra ára en sem vissulega var nokkuð um liðið frá, nefnilega Jóhönnu Fjólu, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Við höfðum á sínum tíma komið á bæði lyfjalistum og lyfjanefnd á Sjúkrahúsinu á Akranesi, samkvæmt fyrirmynd frá Landspítala. Í lyfjanefndinni höfðum við verið þrjú, ég, Jóhanna og Ari læknir. Við höfðum sett okkur það metnaðarfulla markmið að halda fundum lyfjanefndarinnar innan hálftímarammans, og staðið við það. Af því að ég var nú svona vandræðalega ómannglögg, þá bað ég Jóhönnu margfaldlega afsökunar á því að hafa ekki þekkt hana strax. Hún glotti, og kvaðst skyldi taka það fyrir á fundi „á morgun“. Um leið og ég þakka fyrir það, biðst ég velvirðingar á að sóa þannig knöppum fundartíma á Heilbrigðisstofnun Vesturlands. Ég geri nefnilega ráð fyrir að Jóhanna hafi haldið sig við hálftímarammann í fundahaldi.

Eftir hádegi var dagskrá um ávinning fyrir einstaklinga og samfélag.

Þar steig fyrstur í pontu Einar Mäntylä, frá Auðnu. Hann talaði um námskeið í hvernig visindamenn gætu sótt fjármagn til að gera uppgötvanir að nýsköpun. Hann nefndi einnig SPARK, sem þróað hefði verið í Stanford háskóla. Og nefndi að í vísindalegum aðferðum virkaði ekki Kísildalsnálgunin „Fake it till you make it“ (hér sleppi ég að þýða, þrátt fyri dag íslenskrar tungu) og tók Theranos sem dæmi um vandræðin sem af slíkri nálgun gætu hlotist. Hann taldi Ísland ágæta tilraunastofu vegna þess að yfirleitt gengi upp að mistakast hratt, þ.e. að ef eitthvað væri ekki að virka þá kæmi það fljótt í ljós á Íslandi.

Eftir fyrirlestur Einars töluðu nokkrir frumkvöðlar frá fyrirtækjum: Jón Skírnir Ágústtsson frá Nox Medical, Thomas Bonefeld Jørgensen frá Unikk.me í Danmörku, Arna Harðardóttir frá Helix, Jóhann R. Benediktsson frá Curron, Kjartan Þórsson frá Precriby og Sæmundur Oddsson frá Sidekick Health. Þarna var þannig sýnt skýrt með dæmum hvílík gróska er í heilbrigðistengdri nýsköpun í einkageiranum á Íslandi.

Í lokin fékk Bogi Eliasson það verkefni að taka saman það helsta frá deginum og lýsa ferðinni framundan. Hann lýsti því þegar afi hans byggði stórveldi í fiskvinnslu í Fuglafirði og tók það sem dæmi um að allt væri hægt ef viljinn væri fyrir hendi. Hann skerpti einnig aðeins á glærunum sem hann hafði notað um morguninn og kom svo með samlíkingu sem ég er enn að klóra mér í hausnum yfir. Hann sagðist nefnilega hafa tilhneigingu til að líta á gögn eins og hnífa, - en á góðan hátt. Ég skrifaði Boga til að fá nánari útlistun á þessu atriði en mér hefur enn ekki borist svar. Þó að Bogi dveldi ekki beinlínis við atburði dagsins, þá nefndi hann Grindavík. Og þó að hann hefði kannski ekki alveg gert það sem hann kynnti í upphafi máls síns að hann hygðist gera, þá gerði það ekkert til.

Willum Þór ráðherra átti nefnilega lokaorðin og hann tók saman í stuttu og greinargóðu máli helstu dagskrárliði auk þess að þakka þeim sem undirbúið höfðu dagskrána.

Inn á milli auglýstra dagskrárliða mátti sjá stutt myndbönd þar sem frumkvöðlar og vísindafólk kynntu ýmsa starfsemi og ýmsar nálganir á notkun gagna.

Þingið var vel sótt, en þó var ekki hvert sæti skipað. Horfa má á alla fyrirlestrana hér.

Ingunn Björnsdóttir, dósent við Óslóarháskóla og „blaðamaður“ í hjáverkum.

Dagsetning
19. nóvember 2023
Deila