Kæru kollegar,

 

Ég skora á alla lyfjafræðinga að kynna sér upplýsingar um svínainflúensu á heimasíðu landlæknis: www.landlaeknir.is

Lyfjafræðingar eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu og er hlutverk okkar meðal annars að miðla upplýsingum um lyf og heilbrigðismál.

Leggjum okkur fram við að fylgjast með nýjustu upplýsingum um  svínainflúensu á hverjum tíma og miðla þeim á yfirvegaðan og skiljanlegan hátt til almennings og annarra heilbrigðisstétta. Við aðstæður sem þessar er mjög líklegt að fólk leiti til okkar, hvort heldur sem það tengist starfi okkar beint (Apótek) eða vegna þeirrar menntunar sem við búum yfir. Þá er gott að vera vel undirbúinn.

 

Kær kveðja,

 

Aðalheiður Pálmadóttir

formaður

Nýr forstöðumaður Rannsóknarstofnunar um lyfjamál

 

Í lok nóvember s.l. tók Dr. Ingunn Björnsdóttir lyfjafræðingur við starfi forstöðumanns Rannsóknarstofnunar um lyfjamál við Háskóla Íslands. Er stjórn RUL sönn ánægja að bjóða hana velkomna til starfa. Með Ingunni í forsvari fyrir stofnuninni sjáum við fram á þróttmikið starf hjá RUL á næstunni þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í landinu. Ýmis mikilvæg lyfjamálaverkefni bíða úrlausnar og nú er þörf sem aldrei fyrr á virkri símenntun lyfjafræðinga.

 

Ingunn tekur við starfinu af Rúnu Hauksdóttur Hvannberg sem hefur sem kunnugt er tekið við formennsku í Lyfjagreiðslunefnd auk annarra starfa fyrir Heilbrigðisráðuneytið. Einnig hverfur nú frá störfum verkefnastjóri RUL, Ragnhildur Þórðardóttir. Þakkar stjórn RUL þeim báðum fyrir vel unnin störf fyrir stofnunina og óskar þeim velfarnaðar.

Lyfjafræðingafélagið hélt félagsfund að kvöldi 22. janúar, þar sem prófessor Anna Birna Almarsdóttir skýrði frá úttekt Rannsóknarstofnunar um lyfjamál á hvaða möguleikar væru varðandi upptöku þjónustugjalda í apótekum á Íslandi og Rob Heerdink frá Holandi sagði frá hollenskum rannsóknum á þunglyndislyfjameðferð.

Ríkarður Róbertsson var fundarstjóri.

Nokkuð mikið rok var úti þetta kvöld, og því fámennt og góðmennt í Lyfjafræðisafninu. Rokið var það mikið, að erfitt var að heyra allt sem fyrirlesararnir sögðu, þrátt fyrir að þeir brýndu raustina eins og þeir gátu.


Í gær, þann 18. nóvember 2008, var haldinn fyrsti vitundarvakningadagur um sýklalyf í Evrópu. Ætlunin er að halda árlega slíka vitundarvakningu. Athygli er vakin á mikilvægi sýklalyfja þegar þau eru rétt notuð til meðferðar á sýkingum en jafnframt er vakin athygli á áhættu sem fylgir rangri notkun þeirra.

Í ár er athyglinni sérstaklega beint að óþarfa notkun sýklalyfja.

Hér er um heilsuátak að ræða sem unnið er með Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) í náinni samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og marga aðra hagsmunaaðila.

Heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisstarfsfólk, frjáls félagasamtök, einstaklingar og fjölskyldur eru hvött til að taka þátt í þessu átaki með eigin frumkvæði og umræðum um ábyrga notkun sýklalyfja.

Sjá nánar á heimasíðu Landlæknis, www.landlaeknir.is

 

 

Skrifstofa Lyfjafræðingafélags Íslands verður lokuð dagana milli jóla og nýárs en opnar aftur á nýju ári 2009, mánudaginn 5. janúar.

 

Gleðileg Jól

Gott og farsælt komandi ár

Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða

 

Dagur lyfjafræðinnar var haldinn laugardaginn 25. október, og að þessu sinni sú nýbreytni að hefja dagskrá kl. 17, og hafa snæðing, smárétti og drykki, og skemmtiatriði í lok dagskrár. Dagurinn var haldinn á veitingastaðnum Rúbín í Öskjuhlíðinni og hafði verið kynnt fyrirfram að sá staður væri rétt hjá Keiluhöllinni. Pistilskrifari ók því sem leið lá að Keiluhöllinni, en þegar þangað var komið vafðist svolítið fyrir að koma auga á staðinn. Sem betur fer rak pistilskrifari fljótlega augun í orðið Rúbín, ritað með glæsilegu rauðu letri, að því er virtist á klettavegginn, - og tók stefnuna þangað. Lýst var upp með útikertum að dyrunum, og gaf það góða tilfinningu fyrir því sem beið innan dyra. Nokkuð skuggsýnt var í anddyrinu, og gerði það stigann upp í salarkynnin enn glæsilegri og meira áberandi en ella. Stiginn var upplýstur, bæði með ljósum í sjálfum tröppunum og með einhvers konar ljósarönd á handriðinu. Áður en stefnan var tekin á stigann, fengu gestir bók að gjöf, frá Actavis, og fjallaði hún um Geðorðin 10. Pistilskrifari fetaði sig síðan varlega upp upplýstan stigann, ásamt tveimur sjúkrahúslyfjafræðingum sem hún hafði mætt í anddyrinu. Þegar upp var komið blasti við glæsilegur, en nokkuð framúrstefnulegur bar, og fjöldi hringborða með hvítum dúkum. Hátíðastemning, undir klettaveggnum, - en hann var þarna yfir og að nokkru leyti um kring, að því er virtist að mestu ómeðhöndlaður. Þrír skjáir voru í salnum, þannig að ekki reyndi eins á að fólk snéri rétt í sætinu, eins og oft vill verða þegar skjárinn er einungis einn. Þó kom í ljós, þegar dagskrá hófst, að ekki var alveg sama hvar maður sat, því að þótt skjáirnir virtust klónaðir, voru ræðumennirnir það ekki.