Forlagið hefur gefið út bókina „Þættir úr sögu lyfjafræðinnar á Íslandi, frá 1760“ og er bókin 334 bls, full af fróðleik og skreytt fjölda mynda. Höfundur er Hilma Gunnarsdóttir.
Bókin fæst hjá Forlaginu og í helstu bókabúðum en félagsmenn í LFÍ geta keypt bókina á tilboðsverði.
Norrænu lyfjafræðingafélögin, NFU (Nordiska Farmaceut Unionen), senda í dag 1. júlí 2020 frá sér sameiginlega yfirlýsingu varðandi evrópska samvinnu um rannsóknir og aðgengi að bóluefnum.Yfirlýsing NFU
Heilbrigðisyfirvöld óska eftir liðsinni lyfjafræðinga í svokallaða bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.
Leitað er að fólki sem hefur aðstæður og er reiðubúið að koma tímabundið til starfa í heilbrigðisþjónustunni með skömmum fyrirvara, hvort heldur í fullt starf, hlutastarf eða í tímavinnu, eftir því sem aðstæður leyfa.
Fyrirsjáanlegt er að mikilvægar heilbrigðisstofnanir muni á næstunni þurfa að takast á við mönnunarvanda vegna COVID–19 veirunnar vegna veikindafjarvista eða fjarvista heilbrigðisstarfsfólks sem þarf að sitja tímabundið í sóttkví, líkt og þegar eru dæmi um. Með því að koma á fót bakvarðasveit eins og hér um ræðir, með lista yfir heilbrigðisstarfsfólk sem er reiðubúið til að hlaupa í skarðið ef á reynir, standa vonir til þess að heilbrigðisstofnanir geti mannað í stöður með hraði þegar á þarf að halda.
Hér er hægt að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Nánari upplýsingar um bakvarðasveitina má finna hér á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins
Í frétt á heimasíðu Lyfjastofnunar 30. desember 2019 er vísað í kröfu Lyfjafræðingafélags Íslands en þann 21. nóvember 2019 sendi stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands eftirfarandi yfirlýsingu til Lyfjastofnunar vegna mönnunar í apótekum á Íslandi:
Yfirlýsing frá stjórn LFÍ til Lyfjastofnunar vegna mönnunar í apótekum
Stofnfundur Áhugahóps um apótekslyfjafræði í LFÍ var haldinn 27. nóvember 2019 í sal Lyfjafræðisafnsins.
Hlynur Torfi Traustason varaformaður LFÍ var fundarstjóri. Mættir voru 15 lyfjafræðingar sem jafnframt eru stofnfélagar hópsins.
Hugmyndin með stofnun áhugahópsins er að hann verði „suðupottur“ hugmynda um hvað má betur fara í starfi lyfjafræðinga í apótekum. Áhugahópur um apótekslyfjafræði getur jafnframt verið þrýstihópur varðandi málefni sem varða alla lyfjafræðinga sem starfa í apótekum og veitt ráðgjöf til stjórnar LFÍ varðandi atriði sem sérstaklega snúa að starfsviði apóteka.
Samþykktir áhugahóps um apótekslyfjafræði voru samþykktar á fundinum.
Stjórn áhugahóps um apótekslyfjafræði var kosin og er þannig skipuð:
Hlynur Torfi Traustason formaður,
Sigríður Pálína Arnardóttir ritari,
Margrét Birgisdóttir gjaldkeri,
Jóna Björk Elmarsdóttir varamaður.
Miklar umræður voru á fundinum varðandi störf lyfjafræðinga í apótekum, áskoranir og hvað mætti betur fara.
Allir félagar LFÍ geta verið meðlimir í áhugahópnum, sendið póst til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Margrét Birgisdóttir meðstjórnandi í Lyfjafræðingafélagi Íslands og lyfsali í Reykjavíkur apóteki segir mikilvægt að auðvelda fólki að fá undanþágulyf einkum þegar þau séu lífsnauðsynleg,
„Þegar hvorki lyf né skráð samheitalyf er til þarf að sækja um undanþágulyf sem er mun tímafrekara ferli fyrir sjúklinginn, lyfsala og lækninn og kallar á aukin fjárútlát. Það þarf að einfalda ferlið þannig að þegar um mikilvæg lyf er að ræða þurfi ekki að sækja um sérstakar undanþágur.
Hún segir að ferlið sem fer í gang þegar leitað sé að undanþágulyfi feli í sér að oft þurfi að kanna birgðastöðu annars staðar, hjálpa viðkomandi við að hafa samband við lækninn sinn og svo framvegis. Þetta kalli á að fleiri lyfjafræðingar séu á vakt í apótekum.
„Oft er bara einn á vakt og þá hefur hann kannski ekki mikið svigrúm til að aðstoða við þessi vandamál og því teljum við hjá Lyfjafræðingafélaginu að það eigi alltaf að vera tveir lyfjafræðingar á vakt,“ segir Margrét.
Nýútskrifaðir meistaranemar í lyfjafræði þær Tinna Harðardóttir og Unnur Karen Guðbjörnsdóttir fengu tækifæri á því að kynna meistaraverkefnin sín “Hvert viljum við stefna?”: Staða lyfjafræðinga í apótekum á Íslandi og "Væntingar íslenskra lyfjafræðinga í apótekum til mögulegrar útvíkkunar á starfssviði þeirra og meðfylgjandi starfsþróun“ fyrir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Kynningin gekk mjög vel og í kjölfarið náðist góð umræða um stöðu apóteka á Íslandi sem og um aukin tækifæri lyfjafræðinga til frekari þátttöku innan heilbrigðiskerfisins.
Á myndinni má sjá frá vinstri Freyju Jónsdóttur klínískan lyfjafræðing og aðjúnkt við Lyfjafræðideild HÍ, leiðbeinanda Unnar í meistaraverkefninu, Tinnu Harðardóttur lyfjafræðing, Unni Karen Guðbjörnsdóttur lyfjafræðing, Önnu Bryndísi Blöndal lyfjafræðing, Ph.D. og lektor við Lyfjafræðideild HÍ, leiðbeinanda Tinnu í meistaraverkefninu og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.
Lyfjaauðkenni ehf. hefur komið á laggir auðkennis- og gagnasamskiptakerfi fyrir lyf á Íslandi sem ætlað er að auka öryggi sjúklinga. Með tilkomu þessa nýja lyfjaauðkenniskerfis uppfyllir Ísland kröfur tilskipunar og reglugerðar ESB/EES um öryggisþætti lyfja sem ætlað er að koma í veg fyrir að fölsuð lyf komist í dreifingu og berist til sjúklinga.
Í móttöku til heiðurs Þórdísi Kristmundsdóttur í Norræna húsinu í gær 22. nóvember 2018 var Þórdísi veitt gullmerki Lyfjafræðingafélags Íslands fyrir ötult og fórnfúst starf í þágu lyfjafræðimenntunar og Lyfjafræðingafélags Íslands.
Með Þórdísi á myndinni eru eiginmaður hennar Eiríkur Örn Arnarson og formaður LFÍ Lóa María Magnúsdóttir
Fimmtudagurinn 4. október var mikill hátíðisdagur hjá Lyfjafræðingafélagi Íslands og var tilefnið árangur samstarfs okkar (LFÍ) við Royal Pharmaceutical Society (RPS) en félögin tvö undirrituðu samstarfssamning 30. september 2015. Við fengum til okkar erlenda gesti, frá RPS og FIP (alþjóða samtök lyfjafræðinga) sem tóku þátt í hátíðardagskrá sem haldin var í Háskóla Íslands og síðan félagsfundi sem haldinn var í sal Lyfjafræðisafnsins um kvöldið.
Í hátíðardagskránni var nýja náminu í klínískri lyfjafræði við Háskóla Íslands/Landspítala fagnað en það hófst haustið 2016 og byggir á samstarfi LFÍ og RPS. Samtals 6 lyfjafræðingar eru við nám í klínískri lyfjafræði og munu tveir fyrstu nemarnir ljúka náminu á næsta ári. Þar að auki hafa 11 lyfjafræðingar í LFÍ („first wave“ hópur) farið í gegnum mat hjá RPS, 5 lyfjafræðingar fengu afhenta viðurkenningu á þingi FIP í september s.l. og afhenti fulltrúi RPS, hinum lyfjafræðingunum úr hópnum viðurkenningu á hátíðardagskránni.
Yfirskrift félagsfundarins um kvöldið var: „Mikilvægi starfsþróunar og þjálfunar fyrir lyfjafræðinga hvar sem þeir starfa". Lyfjafræðisafnið var opnað fyrir gesti kvöldsins meðan þeir gæddu sér á veitingum.
Dagur lyfjafræðinnar var haldinn hátíðlegur 4. nóvember s.l. Í tilefni af 85 ára afmæli Lyfjafræðingafélags Íslands var Þorsteini Loftssyni prófessor veitt gullmerki félagsins fyrir ötult og fórnfúst starf í þágu lyfjafræði og Ólafi Ólafssyni lyfjafræðingi veitt gullmerki félagsins fyrir ötult og fórnfúst starf í þágu lyfjafræði á Íslandi og í þágu Lyfjafræðingafélags Íslands.
Lóa María Magnúsdóttir formaður LFÍ, Þorsteinn Loftsson og Hanna Lilja Guðleifsdóttir eiginkona Þorsteins
Lóa María Magnúsdóttir formaður LFÍ, Ólafur Ólafsson og Hlíf Þórarinsdóttir eiginkona Ólafs.
Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var fyrir Lyfjastofnun gefa til kynna að geymslu lyfja á íslenskum heimilum er víða ábótavant, að hvetja þurfi almenning til að skila fyrndum lyfjum til eyðingar í apótek og fræða um örugga geymslu lyfja á heimilum. Við þetta haldast í hendur tölur frá Eitrunarmiðstöð Landspítalans um fjölda fyrirspurna vegna lyfjaeitrana.
Tveir lyfjafræðingar hófu starfsnám í klínískri lyfjafræði á sjúkahúsapóteki Landspítala 1. september 2016. Þetta eru fyrstu nemendurnir sem hefja slíkt starfsnám og því er þetta merkilegur áfangi fyrir sjúkrahúsapótekið, Landspítala og ekki síst sjúklinga sem njóta í auknu öryggi og meiri gæðum í lyfjameðferð á spítalanum. Teknir verða inn tveir lyfjafræðingar á ári í þetta starfsnám fyrstu þrjú árin.
Líkt og víða erlendis hefur orðið mikil framþróun í þjónustu klínískra lyfjafræðinga undanfarin ár á Íslandi. Skortur á klínískum lyfjafræðingum hefur verið þröskuldur fyrir frekari framþróun hérlendis og því verið brýn þörf á að bregðast við þeim vanda.
Við uppbyggingu á náminu var ákveðið að leita til Breta um ráðgjöf og samstarf enda hafa þeir verið leiðandi í þróun klínískrar lyfjafræði. Síðastliðið ár hefur mikil vinna farið í að þróa samstarfið.
Mynd: Klínískt lyfjafræðinám hafið á Landspítala 1. september 2016. Elín I. Jacobsen, klínískur lyfjafræðingur, leiðbeinandi, María Jóhannsdóttir, lyfjafræðingur í starfsnámi, Helga Kristinsdóttir, lyfjafræðingur í starfsnámi, Freyja Jónsdóttir, klínískur lyfjafræðingur, kennslustjóri í starfsnámi fyrir klíníska lyfjafræði, Pétur S. Gunnarsson, klínískur lyfjafræðingur, leiðbeinandi.
Lesa meira: Starfsnám lyfjafræðinga í klínískri lyfjafræði hafið á Landspítala
Á 89. fundi norrænna lyfjafræðingafélaga (NFU) sem haldinn var í Osló dagana 14. til 16. ágúst var undirrituð yfirlýsing varðandi hlutverk lyfjafræðinga í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.
Á myndinni má sjá formenn norrænu félaganna undirrita yfirlýsinguna, frá vinstri: Kristina Frithofsson (Svíþjóð), Tove Ytterbø (Noregi), Lóa María Magnúsdóttir (Íslandi), Kirst Kvarnström (Finnlandi) og Rikke Løvig Simonsen (Danmörku).
Lyfjafræðingar sem helstu sérfræðingar í lyfjum og notkun þeirra vilja með þessu leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.
Yfirlýsinguna má nálgast hér.
Vaxandi lyfjakostnaður hér á landi hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri. Minna hefur verið fjallað um mikilvægi þess að lyfjameðferðir séu réttar og að við nýtum lyfin eins vel og kostur er. Þjóðin er að eldast og lyfjanotkun mun halda áfram að aukast á næstu árum. Því verðum við að styðja betur við þá sem taka lyf og sérstaklega þá sem þurfa að reiða sig á lyfjameðferð til lengri tíma til að halda góðri heilsu.
Rannsóknir sýna glöggt að sjúklingar sem eru vel upplýstir um lyfin sem þeir taka eru líklegri til að geta þrifist og lifað með sínum sjúkdómi. Þeir eru jafnframt líklegri til að taka lyfin sín. Þannig getur fræðsla um lyf stuðlað að markvissari meðferð á sjúkdómum og um leið dregið úr sóun lyfja og óþarfa sóun skattpeninga. Rannsóknir hafa að auki sýnt að röng lyfjanotkun hefur mikinn kostnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið og er í mörgum tilfellum ástæða innlagnar á spítala. Á bráðamóttöku Landspítalans verða oft innlagnir sem hægt hefði verið að fyrirbyggja með aukinni fræðslu um lyf og markvissari stuðningi við sjúklinga í tengslum við lyfjamál. Sýnt hefur verið fram á að aðkoma lyfjafræðinga t.d. á meðan á sjúkrahúsdvöl stendur, sem fræða sjúklinga og stuðla að markvissari lyfjanotkun þeirra, getur bætt heilsu umtalsvert og dregið úr kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið.
Alþjóðadagur lyfjafræðinga er í dag, 25. september. Þema dagsins er:
Aðgengi að lyfjafræðingum er aðgengi að heilsu
Af því tilefni birtir LFÍ auglýsingu í Fréttablaðinu í dag.
Tilgangur auglýsingarinnar er að vekja athygli almennings á deginum og mikilvægi þess að þekkja lyfin sín og taka þau rétt.
Aðgengi að lyfjafræðingum og lyfjum er ómetanlegt aðgengi að heilsu.
Í mörg ár hefur verið viðurkennt að aðgengi að lyfjum hefur mikil áhrif á heilsu fólks. Lyfjafræðingar koma að dreifingu lyfja á öllum stigum til að tryggja gæði og framboð lyfja.
Hins vegar tryggir aðgengi að lyfjum ekki sjálfkrafa bestu mögulegu útkomu að bættri heilsu.
Rannsókn sem var gerð 2012 áætlaði að unnt væri að spara árlega 500 milljarða Bandaríkjadala með ábyrgri notkun lyfja og að þekking lyfjafræðinga væru stórlega vannýtt auðlind til að bæta ábyrga notkun lyfja.
Því er mikilvægt að sameina aðgengi að þekkingu lyfjafræðinga og lyfjum.
Árið 2010 var talið að 13% af komum einstaklinga í apótek fælust eingöngu í ráðgjöf og engri sölu á neinum af þeim vörum sem þar eru á boðstólum. Lyfjafræðingar eru því sú heilbrigðisstétt sem víðast hvar í heiminum hefur besta aðgengið fyrir almenning og nýtur mikils trausts.
LFÍ hvetur lyfjafræðinga til að fagna því og nota daginn í dag og alla daga til að kynna mikilvægi okkar í heilbrigðisþjónustu. Verum sýnileg og gefum okkur tíma til að tala við almenning sem vill tala við lyfjafræðinga. Tökum virkan þátt í að bæta heilbrigði allra.
Aðalsteinn Jens Loftsson
Formaður LFÍ
Með tilvísun í viðtal við Vilhjálm Ara Arason lækni sem birt var á RÚV 21. júlí s.l. vill Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) koma eftirfarandi á framfæri:
„Mér finnst stundum skjóta skökku við að apótekarar, þeim er náttúrlega treyst fyrir lyfsölu í landinu, að þeir skuli vera að auglýsa lausasölulyf grimmt í blöðum - auglýsingabann nær ekki yfir lausasölulyf, heldur bara hefðbundin lyf sem læknir þarf að skrifa upp á - gagngert til að selja sem mest af þessum lyfjum,“ segir Vilhjálmur Ari.
Það skal tekið fram að lyfsalar eru ekki að auglýsa lyf nema í undantekningartilvikum og þá bara verð og eða afslætti. Lyfjaauglýsingar eru á vegum framleiðenda eða umboðsmanna þeirra.
Lyfsalar taka ekki afstöðu til þess hvort fólk sé að taka of mikið magnesíum. Hins vegar hefur enginn farið framar í broddi fylkingar en Hallgrímur Magnússon kollegi Vilhjálms í að mæla með inntöku magnesíum.
Með kveðju,
Aðalsteinn Jens Loftsson formaður LFÍ
Sími 6932221, netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Lyfjafræðisafnið verður opið á safnadaginn 13. júlí n.k. og verða lyfjafræðingar á staðnum og fræða gesti um sýningar safnsins.
Kl. 13.30 verður sýnd myndin „LYFIN OKKAR“, fræðsluþáttur um lyf, í fundarsal safnsins. Fjallar þátturinn m.a. um þróun lyfja, hlutverk þeirra og verkun, mismunandi lyfjaform, framleiðslu lyfja og kostnað.
Í Lyfjafræðisafninu eru til sýnis helstu tæki, sem notuð hafa verið til lyfjagerðar öldum saman, en gripir safnsins eru flestir frá fyrri hluta seinustu aldar. Einnig er í safninu sýnishorn af apóteksinnréttingum, sem eru frá fyrstu tugum síðustu aldar.
Urtagarður er staðsettur á milli Nesstofu og Lyfjafræðisafnsins og þar má skoða jurtir sem notaðar voru í alþýðulækningum og til lyfjagerðar á þeim árum sem apótek var rekið í Nesi.
Á safnadaginn verður leiðsögn um urtagarðinn frá kl. 14 – 15.
Aðgangur er ókeypis
Kjarasamningur LFÍ og ríkisins sem undirritaður var 8. apríl s.l. hefur verið samþykktur. Póstkosning um samninginn fór fram dagana 9. til 22. apríl.
Á kjörskrá voru 67. Alls bárust 34 atkvæði (57%), 29 samþykktu kjarasamninginn (85% af greiddum atkvæðum) en 5 samþykktu hann ekki (15% af greiddum atkvæðum).
Kjarasamningur fyrir hönd lyfjafræðinga sem starfa hjá hinu opinbera hefur verið undirritaður við samninganefnd ríkisins.
Kynning á hinum nýundirritaða samningi mun fara fram í sal Lyfjafræðisafnsins, fimmtudaginn 10. apríl kl 20
Samninginn ásamt bókunum og fylgiskjölum skal bera upp til samþykktar og verður niðurstaðan að liggja fyrir þann 23. apríl 2014.
Nýtt tölublað af Tímariti um lyfjafræði, 3.tbl 2013 er komið út og hefur útprentað eintak verið sent félagsmönnum.
Tímaritið er einnig aðgengilegt hér á heimasíðunni, þar sem boðið er upp á pdf niðurhal eða að lesa tímaritið á netinu.
Efni blaðsins er fjölbreytt að vanda, áhugaverðar og fróðlegar greinar ásamt viðtölum og skiptist efni blaðsins í stórum dráttum í þrjá hluta - Félagið, Fólkið og Fræðin.
Vegna fréttar á bls. 6 í Fréttablaðinu 31. maí, þar sem sérfræðingur í hjartalækningum varar við notkun Íbúfens, vill stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands (LFÍ) taka fram eftirfarandi:
Það eru ekki nýjar fréttir að lyfið geti aukið líkur á hjartaáfalli og heilablóðfalli. Íbúfen er því með eftirfarandi varúðartexta í fylgiseðli:
“Áhrif á hjarta og heila
Lyf eins og Íbúfen geta tengst lítillega aukinni hættu á hjartaáfalli (stíflufleyg í hjartavöðva) eða heilablóðfalli. Líkur á aukaverkunum eru alltaf meiri við stóra skammta og meðferð í lengri tíma.
Farið alltaf eftir ráðleggingum um skammtastærð og lengd meðferðar. Notið lyfið ekki samfellt lengur en 7 daga án samráðs við lækni.
Ef þú ert með hjartakvilla, hefur áður fengið slag eða telur að þú gætir verið í áhættuhópi (t.d. ef þú ert með háan blóðþrýsting, sykursýki, hátt kólesteról eða reykir) ættir þú að ræða meðferðina við lækni eða lyfjafræðing.”
Hótel Nordica 16. apríl kl 8:30 - 11:30. Skráning og morgunverður frá kl 8:00
Þátttaka er ókeypis og öllum opin. Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Lesa meira: Málþing LFÍ í samstarfi við Lyfjastofnun 16. apríl
Ályktun Stjórnar Lyfjafræðingafélags Íslands vegna þingsályktunartillögu um að kannað verði hvort niðurgreiða eigi heildrænar meðferðir græðara.
Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands telur ekki tímabært að kannað sé hvort niðurgreiða eigi heildrænar meðferðir eins og lagt er upp með í Þingskjali 566, máli 452 og leggst gegn samþykkt þessarar tillögu. Lyfjafræðingafélag Íslands telur hins vegar tímabært að meta áhrif niðurskurðar undanfarinna ára á gæði og aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu.
1. Fylgdu ávallt leiðbeiningum um töku lyfja.
2. Lestu fylgiseðilinn og kynntu þér verkanir og aukaverkanir lyfsins sem þú ert að taka.
3. Leitaðu upplýsinga hjá heilbrigðisstarfsfólki eða á vefsíðum opinberra stofnana.
4. Ekki treysta því að upplýsingar um lyf sem þú lest í dagblöðum, tímaritum eða á netinu séu réttar.
5. Notaðu ekki lyf sem er ætlað öðrum og ekki gefa öðrum lyf sem var ávísað á þig.
6. Ekki gefa barni lyf sem er ætlað fullorðnum.
7. Geymdu lyf á öruggum stað og þar sem börn ná ekki til.
8. Ekki geyma lyfjaafganga heldur skilaðu þeim í lyfjabúð.
9. Tilkynntu grun um misferli með ávanabindandi lyf til Embættis landlæknis.
10. Tilkynntu aukaverkanir á vef Lyfjastofnunar.
Birt með leyfi höfundar
Afmælishátíð Verkfræðingafélags Íslands (VFÍ) var haldin fyrir skömmu en félagið er 100 ára um þessar mundir. Í tilefni aldarafmælisins var veitt aldarviðurkenning VFÍ. Aldarviðurkenning VFÍ er veitt einstaklingum fyrir framlag sem byggt er á sérhæfðri þekkingu á sviði tækni og raunvísinda til nýsköpunar og framfara í íslensku atvinnulífi. Henni ætlað að vekja athygli á afrekum sem hafa haft umtalsverð áhrif á efnahagslíf og lífsgæði á Íslandi eða eru líkleg til að gera það í framtíðinni.
Aðalfundur LFÍ verður haldinn í Lyfjafræðisafninu við Neströð, miðvikudaginn 28. mars 2012, kl. 19.30.
Samkvæmt lögum félagsins ber að geta þess þegar kosið er til safnstjórnar.
Að þessu sinni þarf að kjósa tvo í stjórn Lyfjafræðisafnsins til 4 ára.
Lýst er eftir fólki sem gæti haft áhuga á að taka þátt í starfi hollvinahóps Urtagarðsins í Nesi og hjálpa til við umhirðu garðsins og stuðla að þróun hans. Hollvinahópurinn er félagslegur bakhjarl aðstandenda urtagarðsins. Vonast er eftir áhugasömu fólki úr Garðyrkjufélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, Lyfjafræðingafélagi Íslands, íbúum Seltjarnarness og kennurum við skólana á Seltjarnarnesi og öðrum áhugasömum einstaklingum. Fyrirtæki geta gerst styrktaraðilar og áhugasamir starfsmenn þá verið meðlimir hollvinahópsins.
Í framhaldi af yfirlýsingu frá Lyfjafræðingafélagi Íslands (LFÍ) vegna fjölmiðlaumræðu um mistök við lyfjaafgreiðslu og mönnum apóteka.
Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) óskar eftir að koma eftirfarandi á framfæri vegna ályktunar sem félagið sendi á fjölmiðla þann 25. ágúst síðastliðinn.
Í ályktuninni er eftirfarandi ranglega sagt um hver veiti undanþágu frá ákvæði um fjölda lyfjafræðinga að störfum í apóteki á hverjum tíma:
Velferðarráðherra getur veitt apóteki undanþágu frá þessu ákvæði, að fenginni umsögn Lyfjastofnunar, sé umfang starfssemi lítið en þó skal gæta þess að fyllsta öryggis við afgreiðslu lyfseðla sé gætt. Lyfjastofnun hefur eftirlit með starfsemi lyfjabúða.
Hið rétta er að það er Lyfjastofnun sem veitir undanþáguna. LFÍ harmar þessi mistök og biður hlutaðeigandi stofnanir hér með afsökunar.
Tengiliðu:
Aðalheiður Pálmadóttir
Formaður Lyfjafræðingafélags Íslands
Gsm 824 9202
Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) tekur undir áhyggjur forstjóra Lyfjastofnunar varðandi mönnun í apótekum landsins.
Í reglugerð byggðri á lyfjalögum segir: Í lyfjabúð skulu á almennum afgreiðslutíma vera að störfum minnst tveir lyfjafræðingar við afgreiðslu lyfseðla og fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja."
Velferðarráðherra getur veitt apóteki undanþágu frá þessu ákvæði, að fenginni umsögn Lyfjastofnunar, sé umfang starfssemi lítið en þó skal gæta þess að fyllsta öryggis við afgreiðslu lyfseðla sé gætt. Lyfjastofnun hefur eftirlit með starfsemi lyfjabúða.
Í ársskýrslu Lyfjastofnunar má sjá að á árinu 2010 fjölgaði apótekum á Íslandi um þrjú á sama tíma og lyfjafræðingum í hverju apóteki fækkar.
Í ljósi þess að fjöldi alvarlegra mistaka í afgreiðslu lyfja tvöfaldaðist milli áranna 2009 og 2010, telur LFÍ fulla ástæðu til þess að skoða og meta þær undanþágur sem veittar hafa verið frá kröfum um fjölda lyfjafræðinga í hverju apóteki á hverjum tíma.
Það er álit stjórnar LFÍ að fylgja beri lyfjalögum. Nauðsynlegt sé að tryggja faglega mönnun í apótekum landsins svo hægt sé að nýta sérþekkingu lyfjafræðinga sem best og með því auka enn frekar fræðslu og ráðgjöf um rétta notkun og meðhöndlun lyfja. Réttari notkun og meðhöndlun lyfja gæti orðið mörgum til hagsbóta, þar á meðal skjólstæðingum apóteka og þeim er niðurgreiðir lyfin þ.e. ríkissjóði.
Tengiliður
Aðalheiður Pálmadóttir
Formaður Lyfjafræðingafélags Íslands
Gsm 824-9202
Yfirlýsing frá Lyfjafræðingafélagi Íslands (LFÍ) vegna umræðu um læknadóp í Kastsljós þáttum RUV
Eitt af hlutverkum Lyfjafræðingafélags Íslands er að stuðla að heilbrigðri og réttri lyfjanotkun og stuðla að faglegu starfi alls staðar þar sem lyf koma við sögu.
Kastljós þættir síðastliðinnar viku sýna afar dökka mynd af undirheimum Reykjavíkur þar sem mikið magn lyfseðilsskyldra lyfja gengur kaupum og sölum. Þættirnir sýna afleiðingar fíknar og ofnotkunar lyfseðilskyldra lyfja með dauðsföllum og öðrum hörmulegum afleiðingum. Að auki er einnig bent á að um mikla sóun á almannafé er að ræða.
Ljóst er að núverandi eftirlit með eftirritunarskyldum lyfjum er á engan hátt nægilegt.
LFÍ leggur áherslu á að:
Stórefla þurfi núverandi eftirlit og nýta eigi betur þá rafrænu gagnagrunna sem nú þegar eru til staðar.
Gera þurfi viðeigandi ráðstafanir til að samtengja aðgangsstýrðan lyfja gagnagrunn á milli allra apóteka. Þannig verði hægt að fylgjast með lyfjanotkun einstaklinga á milli apóteka og með því koma í veg fyrir að einstaklingar geti leyst út samskonar lyf í mismunandi apótekum. Einnig mætti huga að því að minnka magn eftirritunarskyldra lyfja á hverja lyfjaávísun og með því takmarka enn frekar aðgang að þessum lyfjum.
Nýta eigi skömmtunarþjónustu apóteka betur og huga mætti að því að koma á fyrirkomulagi þar sem fíkill fær dagskammt afgreiddan í apóteki og tæki lyfið inn undir eftirliti lyfjafræðings.
Rafræn sjúkraskrá verði aðgengileg öllum læknum.
Lyfjafræðingar í Lyfjafræðingafélagi Íslands eru reiðbúnir að leggja sitt að mörkum til að vinna með yfirvöldum og öðrum heilbrigðisstéttum á Íslandi að umbótum á núverandi kerfi til að markviss, rétt og skynsamleg lyfjanotkun megi verða í þessum lyfjaflokkum sem og öðrum.
Stjórn Lyfjafræðingafélags Íslands
Tengiliður: Ingunn Björnsdóttir varaformaður LFÍ, sími 847-5577
Sjóðastjórn LFÍ vill koma því á framfæri til félagsmanna LFÍ, að hægt er að sækja um styrki til Vísindasjóðs, Fræðslusjóðs og Sjóðs um klíníska lyfjafræði. Næsti umsóknarfrestur er 15. september.
Hægt er að óska eftir að umsóknir í Vísindasjóð séu teknar fyrir á öðrum tímum og verður reynt að koma til móts við þær óskir.
Umsóknar- og áfangaskilaeyðublöð sem umsækjendur eru beðnir um að nota er hægt að finna á heimasíðu LFÍ (www.lfi.is ) eða hafið samband við skrifstofu LFÍ.
Minnt er á að þeir styrkþegar Vísindasjóðs og Sjóðs um klíníska lyfjafræði sem fengu samþykkta styrki á síðasta ári þurfa að skila grein inn í TUL. Styrkþegar Fræðslusjóðs eru minntir á að skila þarf inn áfangaskýrslu til sjóðastjórnar.
Kveðja,
sjóðastjórn LFÍ
Compromising safety and quality: A risky path
3.-8. september 2011, Hyderabad, India Sjá nánar á www.fip.org/hyderabad2011
Ráðstefna sem nefnist The 5th Nordic Social Pharmacy and Health Service Research Conference (NSCP) verður haldin á Hótel Loftleiðum dagana 15.-16. júní 2011.
Eins og nafnið ber með sér er þetta í 5. skipti sem slík norræn ráðstefna í félagslyfjafræði er haldin. Hún er haldin annað hvert ár og hefur verið haldin á hinum fjórum Norðurlöndunum áður. Nú er sem sagt komið að Íslandi.
Ráðstefnan verður í fyrsta skipti haldin með norrænum klínískum lyfjafræðingum. Þeir hafa nýlega stofnað með sér netverk og mun ráðstefnan því líka verða fundur The Nordic Networking Group in Clinical Pharmacy (NNGCP).
Teljum við sem stöndum að þessu að hér sé brotið blað og að íslenskir lyfjafræðingar hafi sýnt að þessar skyldu lyfjafræðigreinar félagslyfjafræði og klínísk lyfjafræði eigi margt sameiginlegt og þurfi að vinna þétt saman til að auka möguleikana á framþróun fagsins.
Yfirskrift sameiginlegu ráðstefnunnar er Practicing pharmacy under economic constraints - putting the patient in focus". Við lyfjafræðingar vinnum að því að sjúklingar fái þau lyf sem þeir þurfa, þrátt fyrir og í samræmi við miklar aðgerðir til þess að hagræða í heilbrigðiskerfinu.
22. ágúst kl. 14:00 opnar Urtagarður í Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi. Í garðinum er safn urta sem ýmist hafa gegnt hlutverki í lækningum eða verið nýttar til næringar og heilsubótar á tímabilinu 1760-1834. Hluti plantnanna tilheyrir íslenskri flóru og hefur lækningamáttur þeirra lengi verið landsmönnum kunnur. Aðrar eru innfluttar en hafa verið ræktaðar í landinu um lengri eða skemmri tíma. Leiðsögn verður um garðinn kl. 17:00 sama dag.
Urtagarðurinn er stofnaður í minningu þriggja manna sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi. Í ár eru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í embætti landlæknis árið 1760 og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands árið 1885. Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck þáverandi landlæknir. Björn Jónsson lyfsali var sá þriðji en hann annaðist nytja- og lækningajurtagarð í Nesi frá árinu 1768.
Opnuð hefur verið heimasíða Þjóðfundar lyfjafræðinga, slóðin er http://framtid.lfi.is
Á þessari síðu hafa öll gögn frá þjóðfundi lyfjafræðinga verið skráð inn og félagsmönnum gefst nú tækifæri til að forgangsraða þeim málefnum sem þeir helst styðja ásamt því að setja inn athugasemdir.
Með haustinu mun stjórn LFÍ fara yfir stöðu mála og reyna að velja einhver af málefnunum efst á forgangslistanum til að vinna með á næsta starfsári og í nánustu framtíð.
Vefurinn verður opinn öllum almenningi, þ.e. almenningur getur lesið og fylgst með umræðunni en aðeins félagsmenn geta forgangsraðað, sett inn athugasemdir og stofnað ný málefni inn á síðuna.
Með von um almenna þátttöku við að skapa framtíð lyfjafræðinga.
Stjórn LFÍ
Mánudagskvöldið, 17. maí, kl. 20 ættu allir félagsmenn LFÍ að stilla á sjónvarpsstöðina ÍNN þar sem nýr þáttur lítur dagsins ljós: Lyfjahornið. Lyfjahornið er samstarfsverkefni LFÍ og ÍNN sem miðar að því að veita almenningi fræðslu um lyfjamál. Upptökur hafa staðið yfir síðustu vikurnar og eru fjórir þættir tilbúnir til sýningar. Verða þeir á dagskrá á mánudagskvöldum kl. 20 eins og áður sagði. Þáttunum er stjórnað af lyfjafræðingunum Vilborgu Halldórsdóttur, Hákoni Steinssyni og Haraldi Sigurðssyni.
Fyrsti þátturinn fjallar almennt um lyf, aðgengi þeirra og leiðir til að koma þeim á áfangastað. Farið verður yfir þróun lyfja í viðtali við Hjörleif Þórarinsson lyfjafræðing. Einnig fá þáttarstjórnendur hjálp frá Hákoni Hrafni Sigurðssyni til að svara vel völdum lyfjafræðispurningum.
Félagsmenn eru hvattir til að fylgjast með fyrstu skrefum LFÍ í sjónvarpsþáttagerð.
Lyfjafræðingafélag Íslands boðar til fundar - Þjóðfundar lyfjafræðinga - fimmtudaginn 20. maí næstkomandi frá kl. 17-21:45 að Neströð, Seltjarnarnesi.
Á fundinum gefst lyfjafræðingum kostur á að ræða forgangsröðun og framtíðarsýn í heilbrigðismálum, stöðu stéttarinnar og annað sem þeim liggur á hjarta. Stjórn LFÍ mun í framhaldinu kynna niðurstöður fundarins fyrir heilbrigðisyfirvöldum, stjórnmálamönnum og embættismönnum.
Fjölmennum þann 20. maí næstkomandi - þitt álit skiptir máli!
Vinsamlegast tilkynnið þátttöku á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. sem fyrst og í síðasta lagi fyrir 12. maí
Stjórn LFÍ
Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) skorar á heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir breytingu á lyfjalögum með tilliti til fyrirkomulags á dreifingu dýralyfja í landinu. Hagsmunaárekstrar koma til þegar sami aðili ávísar lyfi og hefur ávinning af sölu þess og slíkar aðstæður þarf að forðast. Það er álit LFÍ að dreifing dýralyfja eigi að vera á ábyrgð lyfjafræðinga í lyfjabúðum. Lyfjadreifing er afleiðing ávísunar lækna, tannlækna og dýralækna á lyf. Lyfjafræðingar búa yfir víðtækri þekkingu á lyfjum og ætti lyfjadreifing í landinu að vera á höndum lyfjafræðinga og á ábyrgð þeirra, hvort sem um er að ræða mannalyf eða dýralyf.
Lesa meira: Ályktun Lyfjafræðingafélags Íslands um dreifingu dýralyfja á Íslandi
Þann 17. mars var undirritað í Nesstofu samkomulag um stofnun og rekstur Urtagarðs í Nesi. Auk Seltjarnarnesbæjar standa að samkomulaginu Garðyrkjufélag Íslands, Landlæknisembættið, Læknafélag Íslands, Lyfjafræðingafélag Íslands, Lækningaminjasafn Íslands og Lyfjafræðisafnið.
Urtagarðurinn er settur á fót til þess að minnast þess að í ár eru 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar í nýstofnað embætti landlæknis árið 1760 og 125 ár eru frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands árið 1885, að tilhlutan Georg Schierbecks þáverandi landlæknis. Garðurinn er einnig til minningar um fyrsta íslenska lyfsalann, Björn Jónsson sem mun hafa stofnað og annast lækningajurtagarð í Nesi.
Urtagarður verður lifandi safn urta sem gegnt hafa hlutverki í lækningum og lyfjagerð, einnig sem nytjajurtir til matar, næringar- og heilsubóta. Garðurinn verður vettvangur fræðslu um nýtingu urta til lækninga og lyfjagerðar. Hann verður rekinn sem hluti af starfsemi Lækningaminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins í Nesi.
Áætlað er að Urtagarður í Nesi verði opnaður um miðjan ágúst.
Í morgun tókst kjaranefnd LFÍ að ganga frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins (fyrir hönd apóteka og lyfjaframleiðenda) um að greidd yrði desemberuppbót þetta árið til lyfjafræðinga í þeirra þjónustu. Upphæðin í ár er 45.600,- kr. Ekki tókst að ganga frá kjarasamningunum að öðru leyti, en samningarnir hafa nú verið framlengdir ótímabundið.
Ekki hefur enn verið gengið frá kjarasamningi við ríkið, en upplýsingar hafa borist frá samninganefnd ríkisins um að desemberuppbót verði greidd, að upphæð 44.100,- kr, sem er sama upphæð og á síðasta ári.
FIP þingið sem haldið var í Istanbul dagana 3. - 8. september síðastliðinn var það 69. í röðinni og var sótt af tæplega 3000 lyfjafræðingum, fólki sem starfar að lyfjafræðivísindum og rannsóknum, lyfjafræðinemum og öðrum gestum. Yfirskrift þingsins að þessu sinni var: Responsibility for Patient Outcomes - are you ready?
Leitast var við að svara þeirri spurningu frá hinum ýmsu hliðum. Velt var upp spurningum eins og: Hvert er hlutverk lyfjafræðingsins sem hluti af heilbrigðiskerfinu? Eru lyfjafræðingar með þjálfun og reynslu sem þeir þurfa til þess að sinna því hlutverki? Er nám lyfjafræðingsins miðað við hlutverk hans? Hvert er hlutverk lyfjafræðinga í samstarfi heilbrigðisstétta? Haldin voru erindi um fyrirkomulag lyfjafræðináms og samstarfsverkefna jafnframt því að segja frá helstu sviðum þar sem aukin þekking kemur til með að hafa áhrif á lyfjameðferð í framtíðinni. Þessi upptalning er langt frá því að vera tæmandi og tekur fyrst og fremst mið af þeim erindum sem fulltrúar Íslands náðu að hlusta á meðan á þinginu stóð. Gerð verður nánari grein fyrir einstökum fyrirlestrum síðar.
Kæru kollegar,
Ég skora á alla lyfjafræðinga að kynna sér upplýsingar um svínainflúensu á heimasíðu landlæknis: www.landlaeknir.is
Lyfjafræðingar eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu og er hlutverk okkar meðal annars að miðla upplýsingum um lyf og heilbrigðismál.
Leggjum okkur fram við að fylgjast með nýjustu upplýsingum um svínainflúensu á hverjum tíma og miðla þeim á yfirvegaðan og skiljanlegan hátt til almennings og annarra heilbrigðisstétta. Við aðstæður sem þessar er mjög líklegt að fólk leiti til okkar, hvort heldur sem það tengist starfi okkar beint (Apótek) eða vegna þeirrar menntunar sem við búum yfir. Þá er gott að vera vel undirbúinn.
Kær kveðja,
Aðalheiður Pálmadóttir
formaður
Skrifstofa Lyfjafræðingafélags Íslands verður lokuð dagana milli jóla og nýárs en opnar aftur á nýju ári 2009, mánudaginn 5. janúar.
Gleðileg Jól
Gott og farsælt komandi ár
Þökkum samstarfið á árinu sem er að líða
Nýr forstöðumaður Rannsóknarstofnunar um lyfjamál
Í lok nóvember s.l. tók Dr. Ingunn Björnsdóttir lyfjafræðingur við starfi forstöðumanns Rannsóknarstofnunar um lyfjamál við Háskóla Íslands. Er stjórn RUL sönn ánægja að bjóða hana velkomna til starfa. Með Ingunni í forsvari fyrir stofnuninni sjáum við fram á þróttmikið starf hjá RUL á næstunni þrátt fyrir erfitt efnahagsástand í landinu. Ýmis mikilvæg lyfjamálaverkefni bíða úrlausnar og nú er þörf sem aldrei fyrr á virkri símenntun lyfjafræðinga.
Ingunn tekur við starfinu af Rúnu Hauksdóttur Hvannberg sem hefur sem kunnugt er tekið við formennsku í Lyfjagreiðslunefnd auk annarra starfa fyrir Heilbrigðisráðuneytið. Einnig hverfur nú frá störfum verkefnastjóri RUL, Ragnhildur Þórðardóttir. Þakkar stjórn RUL þeim báðum fyrir vel unnin störf fyrir stofnunina og óskar þeim velfarnaðar.
Í gær, þann 18. nóvember 2008, var haldinn fyrsti vitundarvakningadagur um sýklalyf í Evrópu. Ætlunin er að halda árlega slíka vitundarvakningu. Athygli er vakin á mikilvægi sýklalyfja þegar þau eru rétt notuð til meðferðar á sýkingum en jafnframt er vakin athygli á áhættu sem fylgir rangri notkun þeirra.
Í ár er athyglinni sérstaklega beint að óþarfa notkun sýklalyfja.
Hér er um heilsuátak að ræða sem unnið er með Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) í náinni samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO) og marga aðra hagsmunaaðila.
Heilbrigðisyfirvöld, heilbrigðisstarfsfólk, frjáls félagasamtök, einstaklingar og fjölskyldur eru hvött til að taka þátt í þessu átaki með eigin frumkvæði og umræðum um ábyrga notkun sýklalyfja.
Sjá nánar á heimasíðu Landlæknis, www.landlaeknir.is
Dagur lyfjafræðinnar var haldinn laugardaginn 25. október, og að þessu sinni sú nýbreytni að hefja dagskrá kl. 17, og hafa snæðing, smárétti og drykki, og skemmtiatriði í lok dagskrár. Dagurinn var haldinn á veitingastaðnum Rúbín í Öskjuhlíðinni og hafði verið kynnt fyrirfram að sá staður væri rétt hjá Keiluhöllinni. Pistilskrifari ók því sem leið lá að Keiluhöllinni, en þegar þangað var komið vafðist svolítið fyrir að koma auga á staðinn. Sem betur fer rak pistilskrifari fljótlega augun í orðið Rúbín, ritað með glæsilegu rauðu letri, að því er virtist á klettavegginn, - og tók stefnuna þangað. Lýst var upp með útikertum að dyrunum, og gaf það góða tilfinningu fyrir því sem beið innan dyra. Nokkuð skuggsýnt var í anddyrinu, og gerði það stigann upp í salarkynnin enn glæsilegri og meira áberandi en ella. Stiginn var upplýstur, bæði með ljósum í sjálfum tröppunum og með einhvers konar ljósarönd á handriðinu. Áður en stefnan var tekin á stigann, fengu gestir bók að gjöf, frá Actavis, og fjallaði hún um Geðorðin 10. Pistilskrifari fetaði sig síðan varlega upp upplýstan stigann, ásamt tveimur sjúkrahúslyfjafræðingum sem hún hafði mætt í anddyrinu. Þegar upp var komið blasti við glæsilegur, en nokkuð framúrstefnulegur bar, og fjöldi hringborða með hvítum dúkum. Hátíðastemning, undir klettaveggnum, - en hann var þarna yfir og að nokkru leyti um kring, að því er virtist að mestu ómeðhöndlaður. Þrír skjáir voru í salnum, þannig að ekki reyndi eins á að fólk snéri rétt í sætinu, eins og oft vill verða þegar skjárinn er einungis einn. Þó kom í ljós, þegar dagskrá hófst, að ekki var alveg sama hvar maður sat, því að þótt skjáirnir virtust klónaðir, voru ræðumennirnir það ekki.
Á Degi lyfjafræðinnar þann 25. október var ný heimasíða Lyfjafræðingafélags Íslands kynnt fyrir félagsmönnum. Hin nýja heimasíða er mun betri í meðhöndlun fyrir umsjónarmenn síðunnar en sú gamla og verður vonandi að auki mun betri að öðru leyti. Uppbygging síðunnar er með svipuðu sniði og þeirrar gömlu en þar er þó að finna nokkrar nýjungar sem félagsmenn eru hvattir til að kynna sér.
Eins og áður eru tölublöð TUL að finna á lokuðu svæði en að auki hafa fleiri atriði verið sett undir lokuð svæði síðunnar eins og fundargerðir stjórnar, myndir af viðburðum LFÍ, kjarasamningar og fleira. Nýjung er að Föstudagspistill framkvæmdastjóra verður einnig að finna á lokaða svæðinu ásamt spjallborði og upplýsingum um aðra félagsmenn. Hægt er að setja athugasemdir við myndir í myndaalbúmum og gefa þeim dóma. Eins og á gömlu síðunni geta félagsmenn nálgast upplýsingar um sumarhús sem félagið hefur yfir að ráða.
Mjög skemmtileg nýjung á síðunni er svæði þar sem birtast lyfjatengdar fréttir af fréttamiðlum á netinu eins og Morgunblaðinu, Vísi og RÚV. Þar er hægt að sjá 5 nýjustu fréttir af slíkum toga sem hafa birst á hinum ýmsu miðlum og innihalda leitarorð sem tengjast lyfjamarkaðinum. Með þessari nýjung verður síðan í stöðugri breytingu þannig að alltaf má vænta nýjunga þegar litið er við á vefsetrinu.
Eins og áður birtast tilkynningar um atburði og störf sem LFÍ hefur verið beðið um að auglýsa á heimasíðu sinni. Yfirlit yfir nýjustu færslur á síðunni birtast einnig á hægri hlið síðunnar. Forsíða nýjasta tölublaðs TUL birtis á forsíðu heimasíðunnar ásamt glefsum úr myndasafni. Til þess að skoða þessi atriði verður þó að skrá sig inn á lokaða svæði síðunnar.
Þeir sem nýta sér svokallaðar Fréttaveitur (RSS feeds) geta gerst áskrifendur að breytingum á nýju síðunni. Þeir sem það gera fá sjálfvirkt sendar nýjungar af heimasíðunni, sem getur verið gott þar sem viðkomandi fær þá nýjustu fréttir og breytingar sendar strax og missir þar af leiðandi ekki af neinu. Tölvupóstforritið Microsoft Outlook 2007 býður upp á þennan möguleika. Til þess að gerast áskrifandi að breytingum er smellt á litla appelsínugula merkið neðst vinstra megin á forsíðunni.
Upplýsingar um hvernig tengjast má lokaða svæðinu voru kynntar á Degi lyfjafræðinnar og verða sendar félagsmönnum í tölvupósti. Ef einhverjar spurningar vakna með síðuna eru félagsmenn beðnir um að hafa samband við skrifstofu LFÍ t.d. á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. . Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í könnuninni hér til vinstri á síðunni þar sem spurt er Hvernig finnst þér nýja heimasíðan?.
Förgum lyfjum á réttan hátt.
Í dag hefst átak sem Rannsóknastofnun um lyfjamál stendur fyrir sem miðar að því að vekja fólk til vitundar um hvernig best sé að farga gömlum og ónothæfum lyfjum. Gömlum lyfjum skal skila aftur í apótekið en ekki henda í ruslið eða sturta þeim í salernið.
Reynslan sýnir að stór hluti eitrunartilfella eiga sér stað inni á heimilum landsmanna. Neysla fyrndra lyfja getur verið áhrifalítil og jafnvel hættuleg. Geymsla gamalla ónothæfra lyfja á heimilum eykur hættuna á misnotkun lyfja. Mikilvægt er að geyma lyf á réttan hátt og á þeim stöðum þar sem börn ná ekki til.
Vitundarvakningin er unnin í samstarfi við apótekin og Landspítala háskólasjúkrahús og er jafnframt liður í rannsóknarverkefni um umfang og ástæður þess að lyfjum er hent.
Félagsfundur var haldinn í kvöld þar sem kynntur var nýundirritaður kjarasamningur milli LFÍ og Samninganefndar ríkisins, f.h. fjármálaráðherra. Vel var mætt á fundinn og við atkvæðagreiðslu í lok fundar var samningurinn samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.
Á þingi alþjóðasamtaka lyfjafræðinga (FIP), sem haldið var í Beijing í byrjun september var fjallað nokkuð um málefni sem er vaxandi áhyggjuefni Alþjóða-heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), lyfjaiðnaðarins, heilbrigðisstétta og stjórnvalda víða um heim. Málefni þetta er lyfjafalsanir, eða framleiðsla á counterfeit medicines, sem að sögn Jeffrey Gren frá Bandaríska viðskiptaráðuneytinu er nýjasta áhugamál þeirra sem fengist hafa við eiturlyfjaframleiðslu. Michael Anisfeld, frá bandaríska ráðgjafarfyrirtækinu Globepharm Consulting, tilgreindi nánar: rússnesku mafíunnar, kólumbískra viðskiptajöfra og hryðjuverkasamtaka eins og Hizbollah og Al-Quaeda.
Lesa meira: Hafa glæpahringir snúið sér frá eiturlyfjaframleiðslu að lyfjafölsunum?
Gildistími samningsins er til 31. mars 2009. Umsamin hækkun er annars vegar flöt hækkun upp á kr 20300 fyrir alla eins og hjá öðrum ríkisstarfsmönnum. Hins vegar kemur til viðbótar 2,2% hækkun á launatöflu. Heildarhækkun er nokkuð mismunandi, allt eftir því hver grunnlaun voru áður, en gera má ráð fyrir að meðalhækkun sé á bilinu 7-8%. Ávinningur lyfjafræðinga af þessum samningi og því að hafa tekið þátt í samfloti með BHM og fleiri félögum er 2,2% hækkun launatöflu.