Beint í efni

Óþægilegt fyrir alla starfsmenn allra apóteka

18. maí 2023

Óþægilegt fyrir alla starfsmenn allra apóteka

Sig­ur­björg Guðmunds­dótt­ir, lyfja­fræðing­ur og formaður Lyfja­fræðinga­fé­lags Íslands, seg­ir óþægi­legt fyr­ir alla starfs­menn apó­teka að upp hafi komið til­felli þar sem starfsmaður apó­teks hafi flett upp þjóðþekkt­um ein­stak­ling­um og dreift upp­lýs­ing­un­um til þriðja aðila. 

Hún seg­ir að sem starf­andi lyfja­fræðing­ur í apó­teki þyki henni miður að svona eigi sér stað. „Það varp­ar skugga á allt hið góða starf sem á sér stað í apó­tek­um. Við skul­um ekki gleyma því að apó­tek leggja sig fram við að veita fag­lega þjón­ustu og eru mik­il­væg­ur hluti af heil­brigðis­kerfi lands­ins,“ seg­ir Sig­ur­björg í sam­tali við mbl.is. 

mbl.is og Morg­un­blaðið hafa á síðustu dög­um fjallað um að starfs­fólk apó­teks hafi flett upp þjóðþekktu fólki í Lyfjagátt og dreift upp­lýs­ing­un­um áfram til þriðja aðila. 

„Það er klárt mál að ef satt reyn­ist að starfsmaður apó­teks hafi flett upp ein­stak­lingi og lekið upp­lýs­ing­um til þriðja aðila þá er klár­lega um lög­brot að ræða sem þarf að rann­saka sem slíkt,“ seg­ir Sig­ur­björg. 

Morg­un­blaðið hef­ur und­ir hönd­um gögn sem sýna það sem kalla má til­efn­is­laus­ar upp­flett­ing­ar í lyfjagátt, þar sem starfs­menn í apó­tek­um hafa flett upp þjóðþekktu fólki án þess að viðkom­andi ein­stak­ling­ar hafi átt þangað er­indi og án þess að sala á lyfj­um hafi farið fram.

Ákveðinn rekj­an­leiki til staðar

Spurð hvort hún telji það vera galla að ná­kvæm­ur rekj­an­leiki sé ekki til staðar í kerf­inu seg­ir hún að sá rekj­an­leiki sem sé til staðar ætti að vera nóg. Hægt er að rekja hvaða upp­lýs­ing­um var flett upp, á hvaða tíma og í hvaða apó­teki. Hins veg­ar er ekki hægt að rekja hvaða starfsmaður apó­teks­ins fletti upp­lýs­ing­un­um upp og í hvaða til­gangi. 

„Að mínu mati ætti það að vera nóg til þess að hægt sé að taka á mál­um sem þess­um. Auðvitað er mjög al­var­legt að starfsmaður apó­teka sé að fletta upp viðskipta­vin­um af til­hæfu­lausu og leka til 3 aðila. Það er hrein­lega brot á per­sónu­vernd­ar­lög­um, trúnaði sem og ætti það að vera brot á ráðning­ar­samn­ingi.

Í hverju apó­teki er leyf­is­hafi. Viðkom­andi er lyfja­fræðing­ur sem ber ábyrgð á apó­tek­inu og starfs­mönn­um þess og hann ætti að geta séð hvaða starfs­menn voru á vakt þegar brotið er framið. Með því móti ætti að vera hægt að kom­ast til botns í mál­um sem þess­um,“ seg­ir Sig­ur­björg. 

Í því fram­haldi, tel­ur þú að það sé nauðsyn­legt að inn­leiða rekj­an­leika til að tryggja ör­yggi viðskipta­vina?

„Það er ákveðinn rekj­an­leiki til staðar eins og ég lýsti, vissu­lega myndi ein­falda rann­sókn á máli sem þessu ef aðgang upp­flett­ing­ar væri hægt að rekja niður á starfs­mann en ekki ein­ung­is apó­tek. Þetta atriði þyrfti hrein­lega að skoða nán­ar,“ seg­ir Sig­ur­björg. 

Eins og Morg­un­blaðið greindi frá stend­ur til að bæta aðgerðaskrán­ingu í lyfja­á­vísanagátt (lyfjagátt) þannig að öll skrán­ing sé aðgengi­leg á ein­um stað.

Ef upp kæmi at­vik þar sem mann­eskju var flett upp af til­hæfu­lausu, er ekki óþægi­legt fyr­ir starfs­menn á vakt­inni að það sé ekki hægt að rekja hver fletti upp?

„Vissu­lega. Eins og staðan er núna þá er mjög óþægi­legt fyr­ir alla starfs­menn allra apó­teka að upp hafi komið til­felli sem á að hafa gerst í einu apó­teki. Aðal­atriðið er að upp­lýs­ing­ar fólks séu trygg­ar.“

nice

Dagsetning
18. maí 2023
Deila