
Nýr stofnanasamningur LSH
1. nóvember 2023
Nýverið var skrifað undir stofnanasamning milli LSH og LFÍ. Mikil vinna fór í að uppfæra samninginn. Í samninganefnd sátu framkvæmdarstjóri LFÍ, formaður LFÍ, formaður kjaranefndar, lögfræðingur LFÍ og 2 starfsmenn LSH. Lykillinn í góðri samvinnu þessarar nefndar voru góð samskipti, metnaðarfullt starf og skýrar kröfur.
Nýja samniginn má finna hér að neðan
Nýi samningurinn endurspeglar betur störf lyfjafræðinga á LSH, styður starfsmenn í þróun í starfi sem og yfirmenn í þeirri vegferð að leyfa starfsmönnum að vaxa í starfi.
Til að nefna það helsta sem snertir starfsmenn beint ber að segja að verðmæti menntunar til hækkunar er tvöfalt hærra en áður, tekið er tillit til krefjandi aðstæðna í lyfjablöndun og starfsþróun endurspeglar hraðara umhverfi þar sem að starfsreynsla eftir fyrstu fjögur ár í starfi telur meira og hraðar til tekna og líka er formfest aukin ábyrgð einstaklinga sem hafa fengið úthlutaða aukna ábyrgð á daglegum rekstri innan starfsstöðva. Síðast en ekki síst er gert ráð fyrir sérfræðingsstöðu lyfjafræðinga við Landspítala í stofnanasamningnum, staða sem er ekki til í dag en er komin á kortið og sýnir vilja og sýn lyfjaþjónustu Landspítalans til framtíðar.
Mikil vinna var lögð í uppsetningu hæfniviðmiða sem stuðst verður við í starfsþróun umfram fastan ramma sem ekki var hnikað og allir fetuðu án þess að geta haft áhrif á.
Skerpt var á upplýsingum í samningi sem starfsmenn LSH ættu að kynna sér til að þekkja sínar leiðir í starfsþróun og ábyrgðaraukningu.
Öllum starfsmönnum var síðan raðað í störf í nýjum samningi samkvæmt þeirra persónulegu þáttum, enginn starfsmaður lækkar í launum við þessa yfirfærslu, meirihluti starfsmanna hækkar í launum. Hafa ber í huga að stofnanasamningar eru ekki kjarasamningar og það er ekki jafnt gefið á alla í þessum breytingum, þeir sem hækka, hækka mis mikið. Verið er að búa til nýjan ramma fyrir lyfjafræðinga innan spítalans öllum til tekna.
Það var sameiginlegur skilningur milli Landspítala og samstarfsnefndar um að eldri launaflokkar/þrep vegna starfsreynslu/ótilgreind/vörpun ganga upp í hækkun stofnanasamnings. Það sama gildir um fasta yfirvinnusamninga sem munu í einhverjum tilfellum ganga upp í hækkun á grunnröðun. Forgangsröðun í það sem gengur upp í er ótilgreint > vörpun > fastir yfirvinnutímar.
Fundur var haldinn 30. okt þar sem formaður, Baldur Guðni og Inga (úr samninganefnd) kynntu breytingarnar og spurningum var svarað.
Formaður vill þakka fyrir farsæla samvinnu og hlakkar til að takast á við næstu samninga á svipaðan hátt.
Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir
Formaður LFÍ