Beint í efni

NFU

24. ágúst 2023

Í dag hélt lyfjafræðingafélag Íslands eins dags fund með fulltrúum hinna Norðurlandanna til þess að styrkja samband og samskipti á milli þeirra og ræða hin ýmsu mál. Hvert land fékk tækifæri á að ræða það sem hefur gerst á undanförnu ári og hvaða stefnu þau taka á næstu misserum. Einnig var tekið fyrir hvaða auknu ábyrgð lyfjafræðingar hafa í apótekum og að lokum var rædd kosning sem mun eiga sér stað á alheimsráðstefnu í september í Brisbane Ástralíu.

Tekin voru saman þau atriði sem þóttu áhugaverð og gætu mögulega gagnast okkur á Íslandi. Neðst má finna youtube vidjó af samantektinni.

Það sem öll erindin höfðu sameiginlegt voru lyfjaskortur og lyfjafræðingaskortur.

Svíþjóð var með 1.erindið og þau voru með áhugaverða kynningu um lyfjafræðingaskort en þeir hafa opnað fyrir nýtt prógram til þess að reyna að fjölga lyfjafræðingum í Svíþjóð en á sama tíma fara alltof fáir lyfjafræðingar að vinna í apótekum þar sem mesti skorturinn er. Fulltrúi Svíþjóðar minntist á að lyfjafræðingar þar í landi hafa lítið sem ekkert vald til þess að breyta lyfseðlum í lyfjaskorti og geta því lítið hjálpað viðskiptavinum. Það getur verið þreytandi fyrir lyfjafræðinga. Hún minntist einnig á að rán í apótekum er sívaxandi vandamál en Svíþjóð er einmitt peningalaust land og þar sem ekki er hægt að stela peningum þá verða apótekin fyrir barðinu og hentugt að stela lyfjum á og selja á svörtum markaði. Til þess að minnka lyfjaskort þá hefur sænska lyfjastofnunin fengið leyfi til þess að sekta lyfjafyrirtæki sem ekki hafa tilkynnt lyfjaskort í tæka tíð. Það hefur einmitt verið vandamál á Íslandi sð bugðist er of seint við og þessvegna myndast gat. Lyfjafyrirtæki vilja mótmæla þessu því sektin er há en enn hefur ekki verið sektað þar sem „tæk tíð“ er ekki nógu vel skilgreind.

Noregur fékk næst orðið og fulltrúi Noregs talaði mikið um hversu fjölbreytt starf lyfjafræðinga í apótekum væri fyrir utan að taxera og gefa ráð til viðskiptavina. Það þykir lyfjafræðingum spennandi en þar í landi er t.d. bólusett og geta viðskiptavinir fengið viðtal hjá lyfjafræðingi sem fer í gegnum lyfjasögu einstaklings (líkt og verið er að gera í Reykjanesapóteki). Samt sem áður er einnig skortur á lyfjafærðingum þar.

Fulltrúi Finnlands vakti athygli á því að þar í landi er lyfjafræðingafélagið á haus að berjast á móti þeirri breytingu sem líklegast mun eiga sér stað fljótlega. Matvöruverslanir vilja selja lyf, ekki aðeins þau sem eru án lyfseðils heldur líka lyfseðilsskyld, og telja sig geta leyst lyfjaskortsvanda. Stærsta vandamálið þar er að almenningur virðist trúa því og vill því knýja þessa breytingu í gegn. Lyfjafræðingafélag Finnlands er mjög lítið í samanburði við fjölda landsmanna, nokkuð stærra en LFÍ og hefur því lítið bolmagn til þess að láta í sér heyra og berjast gegn breytingum sem hafa neikvæð áhrif á öryggi sjúklinga. Lyfjafræðingar í Finnlandi væru til í að nota menntunina sína betur en það hefur sýnt sig að heilsugæslulæknar treysta klínískum lyfjafræðingum fyrir ýmsu en ekki þeim sem starfa í apóteki. Þess vegna fá lyfjafræðingar í apótekum lítið vald og hafa t.a.m. ekki aðgang að þeim kerfum og uplýsingum sem þeir þyrftu til þess að hjálpa til í heilbrigðiskerfinu. Þetta virtist einnig vera rauður þráður á þessum fundi hjá hinum Norðurlöndunum.

Danmörk er stærsta félagið af þeim öllum enda eru allir sem vinna í „life science“ boðið að gangast í félagið. Það er rekið eins og risa stórt fyrirtæki og í félaginu sjálfu starfa 23 manns sem er 21,5 fleiri manneskju en hjá LFÍ. Það var heillandi að sjá hversu metnaðarfull þau eru og áberandi í fjölmiðlum. Í Danmörku er verið að reyna að leysa lyfjafræðingsvandann með styttingu á opnunartíma apóteka og með því að leggja til að apótek selji eingöngu lyf eða lyfjatengdar vörur svo hægt sé að nýta lyfjafræðingana betur. Danir eru smátt og smátt að reyna að minnka útgáfu tímaritsins síns enda ekki umhverfisvænt en hafa lent í vandræðum því margir félagsmenn vilja fá eitthvað til þess að halda á og finnst án þess fái þeir ekki nógu mikið fyrir peninginn sinn. Danska félagið fór í herferð gegn lyfjasóun og vakti það athygli að 21% af þeim lyfjum sem er hent er enn í óopnum umbúðum.

Frá Íslandi var það að frétta að lyfjafræðingar í apótekum eru sífellt að kljást við lyfjaskort og að upplýsa viðskiptavini um hvað það þýðir og reyna að finna lausn hentar en er jafnframt lögleg. Lyfjastofnun er að reyna að hjálpa lyfjaræðingum og gefa þeim rétt til þess að breyta í undanþágulyf í ákveðnum tilfellum sem er ólíkt því sem er að gerast í hinum Norðurlöndunum. Á Íslandi eru flest öll apótekin eins (amk fljótt á litið) í uppsetningu nema 2 sem hafa fengið það spennandi verkefni að vera leiðandi í nýjungum. Reykjanesapótek þarf vart að kynna en það apótek fékk styrk frá ríkinu til þess að sjá um lyfjastoð sem gengið hefur framar vonum. Hitt apótekið er svo Lyfja Lágmúla sem hefur hafið bólusetningar í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Það eru spennandi tímar framundan hjá lyfjafræðingum og það er svo greinilegt að með sterku stéttar og fagfélagi koma aukin réttindi svo það er gríðarlega mikilvægt að við látum í okkur heyra þegar við viljum breytingar og þegar okkur finnst hlutirnir stefna í ranga átt því annars verður vaðið yfir okkur. Svo einfallt er það.

Spurningar, leiðréttingar og vangaveltur má senda á lfi@lfi.is

Kærar kveðjur

Sigurbjörg Sæunn G

Formaður lfí

Dagsetning
24. ágúst 2023
Deila