Beint í efni

Málþing um lyf án skaða

5. október 2023

Í dag var haldið málþing haldið um skynsamlega endurskoðun lyfjameðferðar (e. deprescribing) sem hluti af ,,Lyf án skaða" átakinu. Lyf án skaða er alþjóðlegt gæðaátak sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hóf árið 2017. Átakið hófst á Íslandi árið 2020. Bakhjarlar átaksins eru Landlæknisembættið og Heilbrigðisráðuneytið. Helstu samstarfsaðilar eru Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK), Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Lyfjafræðingafélag Íslands og Lyfjastofnun. Til þess að hægt verði að gera breytingar í samfélaginu og færa okkur meira í áttina að afvísun (annað orð yfir e. deprescribing) frekar en ávísun lyfja þurfa fleiri að koma að sjúklingum en bara læknar. Málþinginu var streymt beint en í linknum má finna samantekt á niðurstöðum á ensku.

Lyfjafræðingar, hvort sem þeir starfa í apótekum eða sem klínískir Lyfjafræðingar, gegna mikilvægu hlutverki í skynsamlegri endurskoðun lyfjameðferðar enda er þörfin fyrir aðstoð í heilbrigðiskerfinu gríðarlega mikilvæg. Það hefur lengi verið vitað að lyf, þá sér í lagi tengt fjöllyfjameðferð, geta valdið meiri skaða en gagnsemi þegar yfirsýnina skortir og í ljósi þess að Ísland slær öllum nágrannalöndum við í ávísun á ADHD lyfjum sem og opíóíðum þarf að bregðast við með sameiginlegu átaki.

Því miður komust færri að en vildu og því þurfti að velja úr stórum hópi með það sjónarmið að hafa sem flestar hliðar. Meðal þeirra voru lyfjafræðingar í apótekum, klínískir lyfjafræðingar, fulltrúar HÍ, Fulltrúar hjúkrunarheimila, öldrunarlæknar, heilsugæslulæknar, iðjuþjálfi, fulltrúar frá embætti Landlæknis, Landlæknir sjálfur, heilbrigðisráðherra, fulltrúar frá lyfjaþjónustu o.fl. Allir komu sér saman um að leggjast á eitt í að innleiða skynsamlega endurskoðun lyfjameðferða. Það þarf alla að borðinu og markmið fyrir 2023 og fyrir 2030 voru mótuð.

Meðal þeirra punkta sem komu fram um hvað við getum gert núna og hvað við getum gert í framtíðinni voru ma.:

  • Koma þarf af stað vitundarvakningu meðal almennings, þeir þurfa að vera ábyrgir fyrir eigin lyfjum og auka þarf lyfjalæsi svo þeir skilji og átti sig á hvað lyf geta gert bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.
  • Skoða þarf raunverulegan ávinning af pilot verkefninu sem Reykjarnesapótek hrinti af stað með stuðningi frá ríkinu, skapa verklag fyrir lyfjarýni og koma/kenna öðrum lyfjafræðingum í öðrum apótekum.
  • Skynsamlega endurskoðun lyfjameðferðar þarf að verða hluti af kennslu hjá læknum, lyfjafræðingum, hjúkrunarfræðingum og öllum öðrum heilbrigðisstéttum til þess að hægt verði að vinna þetta í teymi með hagsmuni sjúklingsins að leiðarljósi.
  • Gagnagrunnar þurfa að vera aðgengilegri þeim sem geta komið að skynsamlegri endurskoðun lyfja.
  • Gera þarf verklag sem hægt verður að vinna eftir
  • Fjölga klínískum lyfjafræðingum á heilsugæslum og deildum spítala

Hér að neðan má svo sjá umfjallanir um lyf án skaða sem hafa verið teknar upp til útskýringar áður á átakinu.

Dagsetning
5. október 2023
Deila