
Má neita fólki um nauðsynleg lyf?
26. júlí 2023
Má neita fólki um nauðsynleg lyf?
Mikið hefur verið rætt og ritað um síaukna notkun örvandi lyfja hér á landi, enda
Íslendingar Norðurlandamethafar í notkun þeirra. Mikilvægt er þó að láta ekki vanþekkingu og fordóma hlaupa með sig í gönur, því þessi lyf eru mörgum nauðsynleg. Annars væru þau ekki framleidd. Umrædd lyf eru amfetamín, dexamfetamín, lisdexamfetamín og metýlfenidat.
Árið 2018 var farið í svokallaðar sértækar aðgerðir, til að sporna við óhóflegri notkun þeirra. Í kjölfarið tók í gildi reglugerð, sem vart á sér hliðstæðu í víðri veröld. Má segja, að
þar hafi verið hannaður eins konar skammarkrókur fyrir alla þá, sem endilega þurfa að nota þessi lyf. Reglugerðin kveður á um, að aðeins megi afgreiða 30 daga skammt í senn.
Verði sjúklingur þess ekki var, að lyfjaskírteinið sé útrunnið, ber að neita honum um afgreiðslu og senda hann lyfjalausan heim. Bóka skal tíma hjá lækni fyrir lyfjaendurnýjun. Hyggi viðkomandi á utanlandsferð, er honum þröngur stakkur sniðinn, því þá þarf að velja brottfarardag, þegar lyfin eru nýútleyst. Að öðrum kosti þarf að sanna sakleysi sitt, með því að framvísa flugfarmiða sem sönnunargagni. Gildistími lyfjaskírteinis er hafður stuttur, eins og um skammtímaveikindi sé að ræða. ADHD greining frá hinum Norðurlöndunum gildir ekki hér.
Það er sennilega einsdæmi, að heilbrigðisyfirvöld skuli hafa lagt til, að sjúklingum sé neitað um nauðsynleg lyf. Um leið og lyfjaskírteinið fyrir þessum niðurgreiddu lyfjum rennur út, teljast þau óþörf og má alls ekki afgreiða þau. Þar sem flestir notendur þessara lyfja eru með athyglisbrest, eru allar líkur á því, að það fari fram hjá þeim að lyfjaskírteinið sé að renna út. Þarna er í raun verið að jaðarsetja stóran hóp fólks, kalla skömm yfir hann, leggja stein í götu fólks og mismuna því á grundvelli veikinda. Það reynist því mörgum þungbært að koma í apótekið og þurfa að segja upphátt hvaða lyf er verið að sækja og alls kyns afsökunum borið við.
Fyrir handvömm hefur þeim, sem lögðu drög að reglugerðinni, algjörlega yfirsézt, að þessi lyf eru ekki einungis notuð við ADHD og ADD. Áður en sú umræða fór á flug, voru þessi lyf skráð við drómasýki (narcolepsy) og örfáum öðrum taugasjúkdómum, sem þau eru að sjálfsögðu enn notuð við. Drómasýki er alvarlegur taugasjúkdómur á pari við flogaveiki og MS. Varla dytti nokkrum í hug að neita flogaveikum um lyf, þótt lyfjaskírteini væri útrunnið. Það er því algjörlega óforsvaranlegt að ætlast til að þeim, sem mest þurfa á þessum lyfjum að halda, til að koma í veg fyrir óviðráðanleg svefnköst, sé neitað um lyf. Nánari upplýsingar um drómasýki má nálgast á heimasíðu félagsins, dromasyki.is
það er því miður útbreiddur misskilningur að þeir, sem þessi lyf nota, samkvæmt læknisráði, séu vímaðir, því aðalatriðið vill oft gleymast, sem er skammturinn. Aðeins skammturinn verður að eitri “Dosis solo facit venenum” er haft eftir Paracelsusi. Því valda þessi lyf, í réttum skömmtum, alla jafna ekki vímu. Hætta á misnotkun er almennt ekki talin vera vandamál hjá þeim er fengið hafa rétta greiningu. Rétt lyfjameðferð kemur að góðum notum við ADHD og ADD og stuðlar að aukinni árvekni og bættri einbeitingu.
Drómasýkissjúklingar ánetjast alla jafna ekki lyfjum og er það talið stafa af skorti á taugapeptíðunum orexín A (Hypokretín 1) og orexín B (Hypokretín 2), sem gegna mikilvægu hlutverki við þróun fíknar. Nú er unnið að því að þróa lyf, sem eru orexín antagónistar í von um að þau nýtist við fíknisjúkdómum.
Það er ekki neitt náttúrulögmál að Íslendingar séu hástökkvarar í notkun þessara lyfja. Ég hef starfað í apótekum í Svíþjóð, Þýzkalandi og Noregi en hvergi séð lyfjum ávísað jafn fjálglega og hér. Í fyrsta lagi fá margir fíklar, sem eru á ýmsum slævandi og athyglisskerðandi lyfjum, lyfjaskírteini fyrir örvandi lyfjum úr þessum flokki og því borðleggjandi að þau verði misnotuð. Draga myndi verulega úr notkun þeirra, ef tekið væri fyrir þetta. Í öðru lagi færist í vöxt, að geðhvarfasjúklingum sé ávísað þessum lyfjum, þótt á gráu svæði sé. Í blaðaviðtali, á síðasta ári, var haft eftir Halldóru Jónsdóttur, yfirlækni
bráðadeildar Landspítalans, að innlögnum sökum geðrofs og örlyndis hafi fjölgað, sem rekja mætti til þessara lyfja. Má því leiða líkur að því, að einhverjir læknar hafi í sumum tilvikum farið offari í ávísanagleði sinni. Í báðum þessum tilvikum er frekar mælt með að nota t.d. atomoxetin (Strattera) eða guanfacin (Intuniv), sem ekki eru ávanabindandi.
Það er sífellt verið að aðlaga íslenzk lög að regluverki Evrópusambandsins. Mér er til efs, að þessi séríslenzka reglugerð hlyti náð fyrir augum sambandsins. Árið 2020 samþykkti alþingi ný lyfjalög, sem taka mið af reglugerðum og tilskipunum EES og ESB. Þar er m.a. tekið fram, að markmið laganna sé að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum. Það er því ljóst, að fyrrnefnd reglugerð gengur í berhögg við hin nýju lyfjalög, sem og heilbrigða skynsemi. Það er von mín, að háttvirtur heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, sjái sér fært að láta yfirfara þessa reglugerð og tryggja að allir sjúklingar sitji við sama borð og ekki sé vegið að þeim fjölmörgu, sem á þessum lyfjum þurfa að halda.
Heimildir:
Abad, Vivian C, Guilleminault, Christian. New developments in the treatment of narcolepsy. Nat Sci Sleep. 2017; 9: 39-57
Brown KA, Samuel S, Patel DR. Pharmacologic management of attention deficit hyperactivity disorder in children and adolescents; A review for practitioners. Transl Pediatr. 2018; 7(1): 36-47. doi: 10.21037/tp.2017.08.02
Mayer,Geert;Kotterba, Sylvia. Narkolepsie: Diagnose und Therapie. Deutsch Ärztebl 2001; 98(5): A-249/B-214/C-200
Timothy E. Wilen, Stephen V. Pharaones, Joseph Bidennan, Samantha Gunawardene, Does stimulant therapy of attention-deficit/hyperactivity disorder beget later substance abuse? A meta-analytical review of the literature. Pediatrics. 2003 Jan 111(1): 179-85.
Turner M. Treatment of narcolepsy with amphetamine-based stimulant medications. A call for better understanding. J Clin Sleep Med 2019; 15(5): 803-805
Tsujino, Natsuko; Sakurai, Takeshi. Role of orexine in modulating arousal, feeding and motivation. Front. Behav. Neurosci., 18. April 2013
Höfundur:
Stefán Niclas Stefánsson,
lyfjafræðingur