Beint í efni

Heimild lyfjafræðinga í lyfjaskorti, fundur með Lyfjastofnun

9. september 2023


Þann 7. september sl. hittust fulltrúar LFÍ og Lyfjastofnunar á fundi til þess að ræða heimildir lyfjafræðinga vegna lyfjaskorts og önnur atriði sem tengjast þeim á beinan eða óbeinan hátt.

Fundurinn með Lyfjastofnun var hnitmiðaður og góður og  þykir LFÍ mikilvægt að halda góðu sambandi við Lyfjastofnun til þess að tekið sé tillit til rödd lyfjafræðinga.

Spurningarnar sem lagðar voru fyrir komu út frá umræðu á facebook síðu LFÍ og frá fundi þar sem apótekslyfjafræðingar hittust 2. september 2023.

1) Lyfjastofnun er með á heimasíðunni sinni lista yfir gildandi heimildir lyfjafræðinga til þess að breyta skráðu lyfi í óskráð í lyfjaskorti. Lyfjafræðingar vilja hvetja til þess að fleiri lyf verði sett á listann og einnig að lyfjafræðingar hafi heimild til að breyta úr einu undanþágulyfi í annað (sbr Utrogest v.s Utrogestan og Senokot v.s Senase og Quantalan v.s Questran) (https://www.lyfjastofnun.is/lyf/lyfjaskortur/breyting-lyfjaavisunar-ur-skradu-lyfi-i-oskrad/

Umræður: Í gildandi lagaumhverfi hefur Lyfjastofnun ekki heimildir til þess að heimila lyfjafræðingum að breyta úr einu óskráðu lyfi í annað heldur eru útskiptin bundin við skráð lyf í óskráð. Tillaga liggur fyrir um að 52. gr. lyfjalaga verði ekki bundin við skráð lyf og þá geti Lyfjastofnun eftir atvikum veitt lyfjafræðingum heimild til að breyta lyfjaávísun lækna fyrir lyf sem eru ekki með markaðsleyfi á Íslandi. Það er mikil áhersla hjá stjórnvöldum að bregðast við lyfjaskorti. Lyfjastofnun getur ekki svarað fyrir hvenær og hvort þessar breytingartillögur á lyfjalögum ná fram að ganga og benda á heilbrigðisráðuneytið til frekari upplýsingargjafar þar um.

2) Lyfjafræðingar eiga að sjá um upplýsingagjöf til viðskiptavina varðandi undanþágulyf en lyfjafræðingar upplifa oft á tíðum skort á upplýsingum, sér í lagi þegar pakkning og fylgiseðill er á tungumáli sem ekki skilst. Mikilvægt er að í tilfellum þar sem Lyfjastofnun búi yfir augljósum upplýsingum þá sé þeim miðlað áfram.

Umræður: Lyfjastofnun bendir á að lyfjafræðingar eigi að leita að upplýsingum í ritrýndum gögnum því upplýsingarnar liggi ekki endilega fyrir á ensku. Lyfjastofnun hefur reynt að miðla þeim upplýsingum sem þeir hafi sbr. Zitromax og Norgesic og gera sér grein fyrir að þetta skiptir miklu máli fyrir lyfjafræðinga starfandi í apótekum.

3) Lyfjafræðingum þykir það slæm staða að ekki megi klára lyfjalager sinn af undanþágulyfjum þegar skráða lyfið kemur aftur á markað því oft sé ekki er hægt að spá fyrir um hvenær skráða lyfið komi aftur á markað og það gerist jafnvel að skráða og óskráða lyfið komi saman í sendingu. Flestir sitji þá uppi með lager af undanþágulyfjum sem hvorki megi selja né skila og kallar það á ákveðna lyfjasóun.

Umræður: Lyfjastofnun staðfestir að ekki sé heimild fyrir því að selja megi undanþágulyf (án undanþágulyfseðils) eftir að skráða lyfið sé komið á markað. Lyfjastofnun mun skoða þetta nánar.

4) Ef viðskiptavinur biður um lægri styrkleika af lyfi hverju á að svara? Hér kemur inn á Elvanse málið þar sem ákveðnir lyfjafræðingar gáfu 30mg í stað 50mg og fengu svar frá Lyfjastofnun sem ruglaði aðra enn frekar í ríminu.

Umræður: Ef verið er að breyta lyfjameðferðinni þá er það læknisins að ákveða það en ekki sjúklingsins. Breytingar á lyfjameðferð þurfa að fara í gegnum útgefanda samkvæmt gildandi lögum. Þrátt fyrir að lyfjafræðingur nái ekki í lækni þá hefur lyfjafræðingurinn ekki heimild til þess að breyta lyfjameðferð sjúklings. Hér er bæði horft til þess þegar skömmtum er breytt t.d. úr 50 mg í 30 mg eða úr 50 mg í 60 mg sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir ákveðna sjúklinga.

5) Rauði þráðurinn í áskorunum lyfjafræðinga tengjast því hversu erfitt sé að ná í lækna: Ekki sé hægt að ná beint í útgefanda lækna til þess að laga/breyta lyfjaávísun og lyfjafræðingar þurfa að bíða jafn lengi  almenningur. Lyfjafræðingar fyllast oft vonleysi sem eykur líkur á að þeir fari út fyrir heimildir sínar.

Umræður: Vekja mætti athygli á þessu við embætti landlæknis, Lyfjastofnun sýnir þessu skilning og er einnig að kljást við þessar áskoranir í tengslum við afgreiðslu undanþágulyfjaávísana. Vissulega er hægt að bæta þetta. Lyfjastofnun getur þó lítið beitt sér þarna. Mögulegar lausnir þyrfti að ræðast við embætti landlæknis / miðstöð rafrænna heilbrigðislausna t.d. m.t.t. samskipta milli lyfjafræðinga og lækna. Unnið er að mótun á frekari aðkomu lyfjafræðinga til að minnka álag á heilbrigðiskerfinu líkt og þekkist í nágrannalöndunum.

Það varð ljóst eftir fundinn að til þess að lyfjafræðingur geti breytt lyfseðli verði að ná í útgefanda miðað við núgildandi lög, nema í undantekningartilfellum og þá sé hægt að fara eftir lyfjaskortslista Lyfjastofnunar. Ef LFÍ á að beita sér fyrir því að lyfjafræðingar geti hjálpað meira til í heilbrigðiskerfinu þarf að vinna vel með Embætti Landlæknis, Heilbrigðisráðuneytinu og miðstöð heilbrigðislausna. LFÍ mun halda áfram að láta í sér heyra og næsti fundur er mánudaginn 18. september með Embætti Landlæknis. Meira um það síðar.

Dagsetning
9. september 2023
Deila