Beint í efni

Dagur í lífi nema í klínískri lyfjafræði

3. nóvember 2023

Lyfjafræðingar hafa á undanförnum árum tekið að sér fjölbreytt ný verkefni sem starfstétt. Þar á meðal má nefna nýlegaþróun á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þar sem klínískir lyfjafræðingar vinna sjálfstætt á heilsugæslu og eru ráðgefandi fyrir sjúklinga, lækna, hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk. Ég var svo heppin að fá að prufa þennan starfsvettvang nú í september og október sem hluta af  sérnámi í klínískri lyfjafræði við Háskóla Íslands og Landspítala. Ég var staðsett á þremur heilsugæslum, þ.e. í Efra Breiðholti, Sólvangi og í Mjódd. Tekið var vel á móti mér á þessum starfstöðvum og vildi ég deila þessari upplifun með öðrum lyfjafræðingum. Hér að neðan er samantekt á einum vinnudegi hjá mér í liðnum mánuði sem gæti veitt örlitla innsýn í þennan spennandi starfsmöguleika lyfjafræðinga.  

Þegar ég mæti til vinnu klukkan átta fer ég á eigin skrifstofu á heilusgæslunni og opna upp Sögu tölvukerfið, sjúkraskrár kerfi skjólstæðinga heilsugæslunnar, og fer yfir dagskrá dagsins.  Eitt viðtal í persónu og eitt símtal er bókað á mig fyrir hádegi og tvö viðtöl í persónu eftir hádegi. Ég mæti á stöðufund heilsugæslunnar, ræði stuttlega við aðra starfsmenn um tilfellin sem þau hafa sent áfram á mig. Eftir stöðufund stoppar læknir mig á ganginum og spyr um stöðu Ozempic í apótekum, hvort skortur sé ennþá til staðar eða hvenær næsta sending komi nú. Ég undirbý sjúklinga dagsins og tek á móti fyrsta um 9:30. Við ræðum lyfin sem viðkomandi tekur, aðstæður sjúklings og ræðum möguleika á upphafi lyfjaskömmtunar. Skjólstæðingur er spenntur fyrir þessum möguleika, þar sem hann á erfitt með tiltekt lyfja sinna og vill fá aðstoð. Ég ræði fyrirkomulag apóteka, hvað hann þarf að gera til að hefja lyfjaskömmtun, safna upplýsingum sem skömmtunarfyrirtæki þarf og fæ hans samþykki að koma ferlinu af stað. Ég framkvæmi  meðferðarheldni á einu lyfi sem  einstaklingurinn hefur ekki verið að taka sem hann ætti að vera á.

Eftir morgunkaffi hefur einn læknir sent á mig þrjár viðbótarfyrirspurnir fyrir daginn, þar sem ég er beðin um ráðgjöf. Þá er ég beðin um niðurtröppunarplan fyrir Stilnoct (zolpidem) og að setja það upp með í lyfjaskömmtun og hafa samráð við skömmtunarfyrirtæki Einnig spyr hann hvort Diamox (acetazólamíð) sé til fyrir háfjallaveiki í landinu eða hvort  það sé annað í staðinn og að lokum hvort sambærilegt lyf sé til á markaði fyrir ákveðið meltingarensím.  Ég finn lausnir við þessum þrem fyrirspurnum og hringi svo í skjólstæðing rétt fyrir hádegi. Símtalið er hluti af eftirfylgni með niðurtröppun Contalgin (morfín). Einstaklingur var að taka 20mg x2, sem við höfum náð niður í 5mg x2 á mörgum vikum. Skjólstæðingurinn segir frá liðnum tveim vikum, að niðurtröppun sé erfið inn á milli, en að hann sé bjartsýnn og hlakkar til að komast af lyfi. Þegar um niðurtröppun á ópíóíðum er að ræða er fræðsla og eftirfylgni gífurlega mikilvægur þáttur í að vel takist við niðurtröppun.

Eftir hádegi koma tvær fyrirspurnir til viðbótar, þar sem ég er beðin um að sækja tvö skömmtunarkort og gera lyfjarýni, sem ég tek frá tíma í lok dags til að gera. Fyrsta viðtal eftir hádegi er kona á miðjum aldri sem er á mörgum lyfjum, þar á meðal krabbameinslyf, þónokkrum vítamínum og bætiefnum. Hún ræðir við mig aukaverkanir lyfja og segir mér frá áhyggjum af mögulegum milliverkunum lyfjanna. Ég ræði við hana,  kem með bráðabirgða ráðleggingar, en læt hana vita að ég þurfi að kanna nokkra hluti nánar. Eftir viðtal klára ég fulla lyfjarýni og sendi ég á hana heilsuveruskilaboð, þar sem ég gef grænt ljós á ákveðna meðferð sem hún notar eftir þörfum. Eftir það sendi ég ítarlega nótu á hennar heimilislækni með mínum ráðlegginum. 

Í seinna viðtalinu eftir hádegi hafði hjúkrunarfræðingur beðið um yfirferð á milliverkunum þar sem viðkomandi vill byrja á tveimum bætiefnum, króm og berberine, samhliða lyfjanotkun. Skjólstæðingurinn er maður á miðjum aldri, með sykursýki og háþrýsting. Kemur í ljós að berberine getur milliverkað við flest lyf á lyfjalista mannsins, en króm ekki. Ég ræði þetta við hann og hann tekur þá ákvörðun að sleppa því að taka berberine. Þegar þessu viðtali er lokið kemur heimilislæknir við og spyr um stöðu niðurgreiðslu á Wegovy (semaglutide). Að lokum klára ég yfirferðir á skömmtunarkortum dagsins eins og tími leyfir, en geymi eitt þeirra fram í næstu viku, þar sem ég kem á þessa heilsugæslu einu sinni í viku.    

Enginn dagur þessa tvo mánuði er eins, þó sumir dagar eru rólegri og á sumum er alltof mikið að gera. Mikil tækifæri eru fyrir aukna þjónustu klínískra lyfjafræðinga í heilsugæslu og ekki síst í samstarfi við apótekslyfjafræðinga ef okkur tekst að efla klíníska þjónustu í apótekum landsins.  

Viðaukar:
Yfirsýn á verkefnum dagsins


Dagskrá í Dagbók:
08:05 – 08:15: Stöðufundur með læknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, sjúkraliðum og riturum.
9:30 – 10:00: Lyfjayfirferð – Viðtal við skjólstæðing, lyfjarýni og upphaf lyfjaskömmtunar
10:00 – 10:15: Morgunkaffi
11:30 – 11.45: Eftirfylgni með niðurtröppun
Hringi í skjólstæðing og ræði hvernig hefur gengið í niðurtröppun verkjalyfja
12:00 – 12:30: Hádegismatur
13:00 – 14:00: Lyfjayfirferð – Viðtal við skjólstæðing, lyfjarýni, áhersla á milliverkanir á lyfjalista og aukaverkanir lyfja.
10 lyf fast (þar á meðal krabbameinslyf), 4 lyf eftir þörfum og 7 bætiefni.
14:00-14:15: Milliverkanayfirferð – Milliverkanir lyfjalista, levothyroxine, atorvastatin, omeprazol og háþrýstingslyf við tvö bætiefni, króm og berberine.

Samdægurs fyrirspurnir:
- Hvenær kemur Ozempic aftur/næst?
- Setja upp hægða niðurtröppun á stilnoct fyrir sjúkling og heyra í skömmtunarfyrirtæki.
- Er hægt að útvega Diamox fyrir einstakling fyrir háfjallaveiki eða er annað fáanlegt í staðinn?
- Einstaklingur er að taka meltingarensíma bætiefni, er hægt að fá lyfjaskírteini fyrir því eða er sambærilegt lyf á markaði?
- Hverjir geta fengið lyfjaskírteini fyrir nýja lyfinu Wegovy?
2x - Getur þú náð í skömmtunarkort fyrir XYZ, gert lyfjarýni og mælt með eftirfylgni sem á við í dag?


Lyfjarýni felur í sér eftirfarandi þætti:
Staðfesti og skrifa upp föst lyf, PN lyf, bætiefni, vítamín og náttúrulyf.
Fer yfir lyfjalista mtt hvort ábending sé til staðar, skammtur réttur og tímasetning lyfjagjafa réttur.
Staðfesti ef lyfjaofnæmi er til staðar.
Veiti sjúlkingi fræðslu um lyf og er opin fyrir spurningum.
Fer yfir lyf mtt milliverkana milli lyfja og/eða bætiefna
Fer yfir ábendingar á lyfjum og met hvort eftirfylgni sé ábótavant, t.d. mæling skjaldkirtilshormóns á Euthyrox meðferð eða mæling langtímablóðsykur í sykursýki.
Fer yfir lyfjalista mtt nýrnastarfsemi
Vonandi bráðum: Stofna miðlægt lyfjakort

Höfundur er nemi í klínískri lyfjafræði
Bergdís Elsa Hjaltadóttir

Dagsetning
3. nóvember 2023
Deila