
Bólusetningar í apótekum, staðan
28. júní 2023
Lyfjafræðingafélag Íslands sóttist eftir svörum vegna stöðunnar á bólusetningar málum í apótekum. Á meðan mörg nágranna lönd okkar hafa þegar hafið bólusetningar í apótekum þá virðist staðan hér vera óljós.
Í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið stendur til að útvíkka starfssvið lyfjafræðinga. Lyfjafræðingar hafa sóst eftir aukinni ábyrgð og eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu. Í náinni framtíð verður krafa um að lyfjafræðingar bólusetji og hafa nokkrir lyfjafræðingar sótt námskeið í þeim efnum sem LFÍ hélt í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið haustið 2022. Þess ber auk þess að geta að framkvæmd bólusetninga, blöndun bóluefna, verklag við bólusetningar og lyfjagjöf í vöðva nú kennt á 4. ári í lyfjafræði. Jafnframt er farið yfir helstu aukaverkanir og notkun adrenalínpenna. Allir útskrifaðir nemendur hafa því réttindi til að bólusetja.
Svörin sem LFÍ fékk um stöðu mála þá hefur heilbrigðisráðuneytið veitt Lyfju styrk vegna tilraunaverkefnis með bólusetningar sem er í samvinnu við sóttvarnarlækni. Til stendur að apótek Lyfju Smáratorgi og Lyfju Lágmúla taki boltann og bólusetji gegn Covid og inflúensu. Í þessum tilteknu apótekum starfa hjúkrunarfræðingar sem geta aðstoðað við fyrstu skrefin. Gert er ráð fyrir að verkefnið hefjist í haust. Það sem hefur vafist mest fyrir er að til þess að lyfjafræðingar geti bólusett hindranalaust þarf ávísanaheimild á bóluefnin sbr. nágrannalönd og krefst það lagabreytinga. Verið er að vinna í að finna lausn á því máli.
Mörg apótek hafa spurst fyrir en LFÍ getur ekki gefið upp frekari upplýsingar en þær sem koma hér fram að svo stöddu en að sjálfsögðu er þetta fagnaðarerindi að verkefnið sé að hefjast.