Beint í efni

Bólusetningar í apótekum. Hver er staðan?

11. janúar 2024

Í samvinnu við heilbrigðisráðuneytið stendur til að útvíkka starfssvið lyfjafræðinga. Ísland er eitt af fjölmörgum löndum í heiminum sem þetta er stefnan enda eru lyfjafræðingar mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu. Í náinni framtíð verður krafa um að lyfjafræðingar bólusetji og hafa samtals 77 lyfjafræðingar sótt námskeið í þeim efnum, núna síðast í des 2023. Einnig er framkvæmd bólusetninga, blöndun bóluefna, verklag við bólusetningar og lyfjagjöf í vöðva kennt á 4. ári í lyfjafræði. Allir útskrifaðir nemendur hafa því réttindi til að bólusetja.

En hver er staðan á pilot verkefninu og hvenær getur þitt apótek byrjað?

LFÍ setti sig í samband við heilbrigðisráðuneytið sem svaraði spurningum formanns.

Tvö tilraunaverkefni eru í gangi um bólusetningar í apótekum sem ráðuneytið hefur styrkt, annað er á vegum Lyfju og hitt samstarf milli Reykjanesapóteks og HSS. Sóttvarnarlæknir hefur veitt þessum aðilum aðgang að screening kerfinu (kerfið sem heldur utan um skráningar á bólusetningunum).

Tvennt á eftir að leysa til að þess að lyfjafræðingar geti almennt farið að bólusetja, hið fyrra er að veita lyfjafræðingum takmörkuð ávísunarréttindi á umrædda bóluefni (inflúensa og COVID) og síðara hvernig greiðslum eigi að vera háttað.

Kynnt hafa verið í samráðsgátt tillögur um breytingar á lyfjalögum til að mæta hinu fyrra og samþykki Alþingi tillögurnar er hægt að fara í að leysa greiðslufyrirkomulag.

Hafa fleiri apótek möguleika á að vera hluti af tilraunaverkefninu?

Það er hugsanlegt að sækja um næsta haust ef ekki er kominn annar farvegur en sóttvarnarlæknir skipuleggur bólusetningar að hausti og fram að áramótum venjulega. Við vonum að frumvarpið um lagabreytingar á lyfjalögum hljóti brautargengi hvað varðar ávísunarrétt lyfjafræðinga. Mikilvægt er að LFÍ styðji við þær breytingar þegar frumvarpsdrög fara fyrir velferðarnefnd en búast má við mótbárum t.d. frá læknafélaginu sbr. innlegg í samráðsgátt.

LFÍ mun halda áfram að styðja við bakið á lyfjafræðingum en setur bólusetningarnámskeið aðeins á ís á meðan lagabreyting hefur ekki orðið. LFÍ mun halda félagsmönnum upplýstum þegar nær dregur.

Sigurbjörg Sæunn Guðmundsdóttir, formaður LFÍ

*mynd tekin hér

Dagsetning
11. janúar 2024
Deila